144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:15]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur kærlega fyrir fyrirspurnina. Eins og ég kom inn á í ræðu minni eru að verða miklar breytingar á umhverfi okkar í tengslum við loftslagsbreytingar. Ég tæpti aðeins á því í ræðu minni að ég tel að Íslendingar eigi að taka að sér það forustuhlutverk sem að þessu máli snýr. Ég hef ákveðnar hugmyndir um það. Eitt af þeim málum sem mig langar til að vinna að er það sem ég talaði um í ræðu minni, þ.e. allsherjarorkuskipti í samgöngum á Íslandi þar sem við mundum skipta út jarðefnaeldsneytinu fyrir vistvæna orkugjafa. Þetta gætum við gert með sjálfbærum hætti með því að nýta okkar eigin orkuauðlindir og með því gætum við markað okkur og skipað okkur í algjöra forustu í loftslagsmálum, ekki bara hér á norðurslóðum heldur í heiminum. Ég tel að ef unnið verður að þessu máli markvisst sé þetta ekki endilega svo mikil framtíðarmúsík sem við erum að tala um. Ég held að við eigum að byrja strax að undirbúa vistvæn orkuskipti, eins og ég vil kalla þau, og ég tel að þetta muni verða okkur Íslendingum til framdráttar, ekki bara á heimsvísu, af því að við verðum náttúrlega að hugsa sem heimsbúar, ekki bara Íslendingar, við erum heimsbúar, við verðum að hugsa um hvar við getum hjálpað til svo að við eyðileggjum ekki lífsskilyrðin á jörðinni. Við getum sparað okkur óhemjumikinn gjaldeyri með þessu og við getum gert okkur að mjög framúrskarandi kosti, til dæmis fyrir ferðamenn að koma til lands sem væri svo grænt.