144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:21]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu hans. Utanríkismál og framkvæmd stefnu okkar í þeim málaflokki skipta gífurlega miklu máli í heimi þar sem samskipti þjóða eru sífellt að aukast og fjarlægðir að minnka. Við erum vissulega eyland en getum ekki verið það í utanríkismálum. Það sem gerist í fjarlægum heimshornum hefur bein áhrif hérlendis, stundum bein áhrif, eins og ég sagði áðan, stundum óbein.

Því miður er oft lítill skilningur fyrir mikilvægi utanríkisþjónustunnar. Þar hefur verið skorið niður á undanförnum árum en nú er orðið löngu tímabært að bæta í. Íslenska þjóðin þarf síst á því að halda að einangrast á alþjóðavettvangi árið 2015. Rödd okkar þarf að heyrast sem víðast og sem hæst. Ég hef því fagnað þeim metnaði sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sýnt í málaflokki sínum, hann hefur stutt við fjölmörg góð málefni sem eru til framfara.

Það eru tvö atriði í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra sem ég vil vekja athygli á, Úkraína og Sýrland. Átökin í Úkraínu hafa verið í brennidepli í nokkurn tíma. Núna er ár síðan Rússland innlimaði Krímskaga. Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi í sjónvarpsviðtali í síðustu viku að þetta hefði verið vel undirbúin aðgerð og að hann hefði verið tilbúinn að ganga alla leið til að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Og þetta er ekki allt því að sannanir eru fyrir hendi um íhlutun Rússa í þeim átökum sem eru í austurhéruðum Úkraínu, Donetsk- og Luhansk-héruðum.

Ég fagna þeirri ákveðnu afstöðu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur tekið í þessu máli, sem er ekki einangrað við Úkraínu. Það sem hefur gerst þar getur hæglega smitast út til annarra Evrópuríkja. Sjálfur hef ég rætt við fjölmarga þingmenn Eystrasaltsríkja auk Georgíu og Finnlands, sem hafa miklar áhyggjur af þróun mála og röksemd þeirra er þessi: Ef Rússar komast upp með það sem þeir eru að gera í Úkraínu munu þeir ekki hætta, við verðum næstir á dagskrá.

Það er því ekki möguleiki að sitja hjá í því mikilvæga máli sem Úkraína er. Utanríkisráðherra hefur lýst yfir pólitískum stuðningi við Úkraínu, bæði á tvíhliða fundum og á alþjóðavettvangi, m.a. á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í september og á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í desember. Það er vel. Átökin í austurhluta Úkraínu milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna, sem njóta víðtæks stuðnings Rússa, hafa kostað um sex þúsund manns lífið. Eyðilegging mannvirkja er gífurleg og efnahagslíf landsins er í rúst, enda flest stærstu námufyrirtæki landsins staðsett í austurhlutanum. Þúsundir manna eru á vergangi í Úkraínu vegna átakanna.

Segja má að vandamál Úkraínu sé þríþætt. Landið á í stríði sem er að eyðileggja alla innviði þess. Herinn er vanbúinn að berjast við uppreisnarmenn sem njóta stuðnings eins öflugasta hers í heimi. Úkraínumenn hafa sagt mér að uppistaða hersins séu gamalmenni og unglingar. Slík átök geta aðeins endað á einn veg. Vopnabúr úkraínska hersins er gamalt og úr sér gengið.

Í annan stað hefur orðið efnahagslegt hrun í Úkraínu sem tengist átökunum í austurhlutanum náið. Efnahagslífið hefur alltaf verið viðkvæmt, núna er það hrunið með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina en um 40 milljónir manna búa í landinu.

Í þriðja lagi er það spillingin sem er landlæg í Úkraínu, sem gerir landið að einu spilltasta landi í heimi. Sú spilling nær til efstu laga samfélagsins og er eitt stærsta verkefni núverandi stjórnar Poroshenko forseta að berjast gegn henni. Nýlega voru samþykkt lög í Úkraínu sem auðvelda brottrekstur embættismanna sem gerast sekir um spillingu. Baráttan gegn spillingunni er rétt að byrja, hún verður löng og erfið í landi sem þekkir ekkert annað en spillta embættismenn.

Lönd Evrópusambandsins hafa lýst yfir stuðningi við stjórnvöld í Úkraínu. Stuðningur hefur hingað til aðallega miðast við fjárstuðning og efnahagsþvinganir á Rússa. Slíkur stuðningur er ágætur svo langt sem hann nær en dugar engan veginn til. Það verður að ganga enn lengra, við getum einfaldlega ekki setið hjá og horft upp á að alþjóðleg lög séu brotin daglega í Úkraínu. Þessi mál hafa margsinnnis verið tekin upp í Evrópuráðinu þar sem ég á sæti, en það ráð fjallar fyrst og fremst um mannréttindamál og lýðræði í aðildarríkjum. Þess má geta að bæði Úkraína og Rússland eiga aðild að Evrópuráðinu.

Fyrir ári síðan voru Rússar sviptir atkvæðarétti í ráðinu tímabundið til eins árs auk þess sem þátttaka þeirra í nefndum var takmörkuð. Sú takmörkun var bundin til eins árs, eins og ég sagði, og átti að renna út í janúar síðastliðinn. Margir voru þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að heimila aðkomu Rússa að Evrópuráðinu að nýju í janúar og voru rökin þau að nauðsynlegt væri að halda viðræðum við þá áfram. Það hefur hins vegar komið skýrt fram að Rússar hafa takmarkaðan áhuga á umræðum um stöðuna á Krímskaga eða í Úkraínu. Það var því ákveðið á fundi Evrópuráðsins í janúar að framlengja ákvæði sem takamarka rétt Rússa til að sækja fundi og greiða atkvæði. Ég fagna þeirri ákvörðun. Evrópuráð, sem kennir sig við mannréttindi og lýðræði, getur aldrei sætt sig við það sem hefur gerst í Úkraínu, hvað þá að aðildarþjóð ráðsins skuli vera gerandi í málinu.

Átökin í Sýrlandi hafa einnig verið í brennidepli síðastliðið ár. Átökin þar hafa reyndar staðið yfir í fjögur ár. Þar hafa um 200 þúsund manns látið lífið, 3 milljónir manna hafa flúið land og um 7 milljónir eru á vergangi innan lands.

Átökin í Sýrlandi voru mikið í sviðsljósinu fyrst eftir að þau hófust og var Assad forseti gagnrýndur harðlega af alþjóðasamfélaginu. Sú gagnrýni varð enn háværari eftir að í ljós kom að stjórnarherinn hafði beitt efnavopnum gegn eigin borgurum. Fyrir rúmu ári fóru samtök sem eru kennd við ISIS að blanda sér fyrir alvöru í baráttuna í Sýrlandi. Þá bar svo við að gagnrýni á Assad hljóðnaði að mestu á Vesturlöndum, enda var skyndilega búið að finna annan óvin sem var enn verri en sá fyrsti. Þannig verður bæði pólitísk umræða og fjölmiðlaumræða oft undarleg og nánast vandræðaleg.

Ástandið í Sýrlandi er skelfilegt. ISIS-samtökin eru ekkert annað en hryðjuverkasamtök sem hafa staðið fyrir skelfilegum hlutum, ekki síður en stjórnarherinn. Það er algjörlega nauðsynlegt að uppræta samtökin sem fyrst. Hingað til hafa vestræn ríki ekki viljað blanda sér of mikið í málefni Sýrlands nema með lofthernaði. Slíkar aðgerðir geta skilað árangri en þá aðeins til langs tíma. Flest bendir því til þess að átökin í Sýrlandi haldi áfram næstu árin og þeir sem þjást eru almennir borgarar landsins. Flóttamenn streyma út úr landinu til nágrannaríkja og eins til Vesturlanda. Hingað til hefur aðeins eitt Evrópuríki opnað faðm sinn að fullu fyrir landflótta Sýrlendingum og það eru Svíar. Þeir hafa opnað land sitt fyrir öllum Sýrlendingum sem þangað vilja koma sem flóttamenn. Tugþúsundir Sýrlendinga hafa þekkst það boð.

Miklar áhyggjur eru á Vesturlöndum vegna þeirra fjölmörgu ungmenna sem fara til Sýrlands til að styðja við hina ýmsu uppreisnarhópa sem berjast þar. Sú umræða hefur ekki farið mjög hátt hérlendis, en það væri kannski rétt að hún hæfist fyrir alvöru. Samkvæmt upplýsingum sem voru lagðar fram á fundi Evrópuráðsins í fyrradag hafa til dæmis um 70 Norðmenn farið yfir til Sýrlands, flestir til að berjast við hlið ISIS-samtakanna. Um 20 þeirra hafa látið lífið í átökunum. Enn fleiri hafa farið frá Svíþjóð og Danmörku. Er útilokað að Íslendingar geri slíkt hið sama? Alls ekki. Það er því orðið löngu tímabært að við tökum umræðu um það hvernig við eigum að bregðast við.

Fyrir tilstilli Bandaríkjanna hafa yfir 60 ríki, þar með talið öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og 10 arabaríki, lýst yfir stuðningi við baráttuna gegn ISIS. Fyrsti fundur þessara ríkja var haldinn í Brussel í lok síðasta árs. Utanríkisráðherra sótti fundinn og tilkynnti að Ísland mundi leggja sitt af mörkum með því að styðja neyðar- og mannúðaraðstoð fyrir óbreytta borgara í Sýrlandi í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Það er vel. Við verðum að gera enn betur. Ástandið í Sýrlandi er slíkt að það er aldrei hægt að líta undan.