144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[18:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég á seinni ræðu mína eftir og ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu úr hófi. Ég hélt ræðu fyrr í dag þar sem ég lagði verk hæstv. ráðherra á þann kvarða sem hann bjó til í upphafi kjörtímabilsins. Þá lýsti hann því yfir hvaða áhersluatriðum hann ætlaði að fylgja. Þau voru fjögur. Ég hef aðeins farið yfir þau. Ég ætla ekki að taka tímann í að fara yfir þau aftur.

Eitt af því sem hann sagði var akkúrat þetta, að bæta sambandið við Bandaríkin. Nú er það auðvitað alkunna að sambandið við Bandaríkin hefur ekki verið eins gott frá því árið 2006 og það var áður, en það er samt sem áður þannig að þetta er stórveldi, við höfum alltaf átt við það vinsamleg samskipti og þó að þjóðin hafi á stundum holrifið sjálfa sig af deilum út af veru bandarísks herliðs þá er það frá, það er partur af fortíðinni. Við þurfum og eigum samt sem áður að leggja rækt við þetta ríki, ekki síst vegna þess að það hefur verið vinsamlegt okkur og Íslendingar hafa gott sögulegt minni. Þeir gleyma því ekki að Bandaríkin voru fyrsta þjóðin sem viðurkenndi sjálfstæði okkar og við hefðum ekki orðið sjálfstæð árið 1944 nema vegna þess að Bandaríkin hvöttu okkur og studdu okkur á alla lund. Það skipti miklu máli. Við eigum ekki að gleyma slíku.

Eftir árið 2006 hefur staðan verið með allt öðrum hætti. Það er alveg rétt að á meðan ég var utanríkisráðherra hefur það vafalítið ekki glatt Bandaríkjamenn sú harða afstaða sem ég tók, og ríkisstjórnin öll saman sem ég tilheyrði, gagnvart Palestínu. Rétt er það. En þegar hæstv. ráðherra tók við barði hann sér á brjóst og sagði að nú yrði aldeilis sýnt fram á að hægt væri að bæta sambandið. Hvernig hefur það verið? Hæstv. ráðherra sagði að það hefði skánað. Hvernig hefur það verið? Hann hefur ekki einu sinni fengið fund með einum einasta ráðherra Bandaríkjanna. Jú, hann fékk myndatöku þar sem Chuck Hagel, sem ekki er lengur í ríkisstjórninni, kom við til að væri hægt að birta mynd af þeim. Það var ekki fundur. Hefur hann átt almennilega fundi með utanríkisráðherra Bandaríkjanna? Nei. Ég er ekkert að skamma hæstv. ráðherra fyrir það, ætla ekki einu sinni að segja að það sé vegna þess að ekki sé takið mark á honum, ég ætla ekki að halda því fram. En við vitum báðir, ég og hæstv. ráðherra, að það er vegna þess að það er óleyst vandamál á millum Íslands og Bandaríkjanna.

Þegar hæstv. ráðherra segir að sambandið muni skána undir forustu hans (Gripið fram í.) vildi ég óska að svo yrði, en við verðum að horfa á verkin. Við skulum til dæmis skoða þær athugasemdir sem gerðar hafa verið út af hvalveiðum Íslendinga. Þegar ég var utanríkisráðherra fengum við vissulega slíkt og gátum með herkjum samið frá okkur verstu viðurlögin sem þá voru reifuð.

Herra forseti. Síðan hefur það gerst að í tíð þessarar ríkisstjórnar eru viðurlögin orðin harðari. Í síðustu viku var birt skjal í Bandaríkjunum þar sem sýnt er bókstaflega fram á það eða sagt að bandarískir ráðherrar tali ekki einu sinni við eða komi til Íslands út af þessu máli. Það er ýmislegt fleira sem þar kom fram sem sýnir svart á hvítu að viðurlögin samkvæmt Pelly-bókuninni eru harðari í tíð þessarar ríkisstjórnar en áður. Hefur hæstv. utanríkisráðherra á einhvern hátt rætt það við utanríkisráðherra Bandaríkjanna? Var það ekki þannig að eitt það fyrsta sem hæstv. ráðherra þurfti að horfast í augu við var sú staðreynd að Bandaríkin héldu mjög mikilvæga ráðstefnu um hafið? Hver kom frá Íslandi? Var það hæstv. ráðherra? Nei, enginn.

Það er því með engu móti hægt að segja annað en að hafi Bandaríkin verið köld við okkur á yfirborðinu frá árinu 2006 hafa þau aldrei sýnt það með harðari hætti en akkúrat í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta eru auðvitað sömu flokkarnir og á sínum tíma klúðruðu sambandinu við Bandaríkin um stundarsakir 2006. Ég ætla ekki að fara yfir þá sögu en staðreyndin var sú að það var forkastanlegt hvernig haldið var á þeim samningum. Það var þó ekki Framsóknarflokknum að kenna, þannig að ég ætla ekki að berjast við hann um það. Mér þætti vænt um það, herra forseti, ef hæstv. ráðherra vildi gleðja mig í lok dags áður en við kveðjumst og höldum heim og segja mér: Í hverju felast merkin um að sambandið við Bandaríkin hafi skánað?