144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

Norræna ráðherranefndin 2014.

611. mál
[19:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að ljúka þessu þá er ánægjulegt að heyra að við getum verið sammála um að auðvitað eigi að vera pólitík án þess að við reynum þar með að skapa ágreining, þvert á móti ættum við að reyna að ná samstöðu um málin.

Við erum að ræða heilbrigðismálin og menntamálin og ég ætla ekki að búa til ágreining um það hver eyðir meira eða notar meiri pening í þau mál. Það sem mér finnst skipta miklu máli er það sem ég nefndi og er samneyslan. Hún hefur dottið niður hjá okkur á síðastliðnum árum vegna hrunsins. Nú erum við að fá landsframleiðsluna upp. Samneyslan er að verða minnkandi hluti og er nánast komin niður í það sem er í Bandaríkjunum og Bretlandi. Við erum ekki á leiðinni upp enn þá, þó að vísu væri gaman sjá mælingarnar. Varðandi heilbrigðismálin er eitt af því sem er jákvætt við það sem núverandi ríkisstjórn hefur gefið út að hún vill verða samanburðarhæf við Norðurlöndin. Þá erum við að tala um nokkra tugi milljarða í heilbrigðiskerfið, í hlutfalli af landsframleiðslu, sem er sú fjárhæð sem við höfum til skiptanna.

Það sem er athyglisvert í norrænu samstarfi og skiptir líka miklu máli, það er einmitt innan Norðurlandaráðs eins og hefur komið fram og að hluta til hér í þinginu, er málfrelsi hópa sem eru jafnvel litlir flokkar, það er langt umfram hlutfall af þingmannafjölda. Í sérstakri umræðu eru tveir frá Pírötum, alveg jafn margir og frá Framsókn sem er mikið fleiri þingmenn. Þessi réttur er mjög virtur hjá Norðurlandaráði og skiptir miklu máli. En hann þarf að leiða aðeins lengra, menn þurfa að passa sig. Það er ekki við hæstv. ráðherra sem hér er til svara að sakast, en ef skoðað er hvernig það er hjá mörgum öðrum hópum hefur verið afþakkað að menn séu með þverpólitískt samstarf um ýmis stór mál. Það er hættumerki í samfélagi.