144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

ívilnunarsamningur við Matorku.

[15:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að stofna til þessarar umræðu vegna þess að það er sannarlega ekki vanþörf á miðað við misskilninginn sem kom fram í þessari stuttu ræðu þingmannsins. Í öllum grundvallaratriðum fór þingmaðurinn með rangt mál.

Það er kostulegt að fylgjast með því að andstæðingar þessa máls hafa lagt mikið á sig við að gera það tortryggilegt og síðast í morgun tók fyrrverandi formaður flokks hv. málshefjanda þennan samning sem dæmi um þá spillingu sem viðgengst í núverandi ríkisstjórn. Og ég verð að segja að það er hátt reitt til höggs, mjög hátt reitt til höggs.

Þegar málið er skoðað af sanngirni þá sjá menn að þetta eru vindhögg. Ég ætla að fullyrða það hér og nú að þetta mál og þessi samningur hefði fengið nákvæmlega sömu afgreiðslu í tíð þriggja síðustu iðnaðarráðherra, þeirra Katrínar Júlíusdóttur, Oddnýjar Harðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Það er kannski eitt af því fáa sem má hrósa ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fyrir, að hafa beitt sér fyrir því að setja almenn lög um veitingu ívilnana vegna fjárfestingar til að efla uppbyggingu í íslensku atvinnulífi. (Gripið fram í.) Og vegna þess að það mál þótti gott og horfði til framfara var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, 50:0. Hv. þingmaður kallar fram í að þau lög séu ekki lengur í gildi. Nei, þau eru ekki lengur í gildi vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemdir við framkvæmd laganna og m.a. það að fyrrverandi ríkisstjórn gerði lagabreytingar án þess að tilkynna það til ESA.

Þannig var staðan þegar við komum að þessu máli og þá var tekin ákvörðun um að halda þeirri stefnu að hafa almenna löggjöf og það er frumvarpið sem liggur fyrir þingi. Þingmaðurinn spyr: Af hverju hef ég komið með Algalíf- og Thorsil-samningana sér? Það er vegna þess að lögin eru ekki í gildi. Af hverju kem ég ekki með Matorku inn í þingið? Ég mun gera það ef hv. þingmaður og þingmenn koma ekki með okkur í það að samþykkja heildarrammann sem þetta snýst allt saman um.

Á grundvelli síðustu rammalöggjafar voru gerðir sex fjárfestingarsamningar, m.a. um kísilver, gagnaver, vinnslu á ferskum fiski til útflutnings, Marmeti, fiskvinnsla í Sandgerði sem má nú alveg halda fram að sé starfsemi sem sé fyrir í landinu. Í umræðunni þegar ég kom með Algalíf-samninginn í fyrra þá kölluðu m.a. þeir fyrrnefndu þrír iðnaðarráðherrar eftir því að rammalög yrðu sett af því að hin voru runnin úr gildi. Ég kom með það frumvarp í apríl síðastliðnum en eins og hv. þingmaður man þá var ekki mikill starfsfriður á síðustu dögum þingsins í fyrra. En síðan var þetta frumvarp lagt fyrir þingið í september. Og mig langar í þessu samhengi að lesa bút úr ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur þar sem hún færir rök fyrir mikilvægi þessarar löggjafar, með leyfi forseta:

„Enn og aftur legg ég á það mjög mikla áherslu að við reynum að halda því verklagi að vera með skapalón, vera með löggjöf að baki. Það er líka betra fyrir ráðherrann að vera með gagnsæja löggjöf að baki svona vinnu. Það er einfaldara á svo margan hátt, ekki bara fyrir ráðherrann, heldur líka fyrir þá aðila sem eru að semja við hið opinbera, að þeir þurfi ekki að vera í löngum tvíhliða samningum við ríkið heldur geti bara gengið svona nokk að ákveðnu kerfi ef þeir uppfylla ákveðnar strangar kröfur sem gerðar eru í löggjöfinni. Þar með erum við heldur ekki að fara í manngreinarálit, þ.e. þá erum við að horfa á verkefnin fyrst og fremst en ekki endilega að fjalla um einstaka fyrirtæki í sölum Alþingis sem alltaf getur orðið mjög erfitt og viðkvæmt.“

Það er nákvæmlega það sem er að gerast hér. Í umræddu máli, Matorku, hefur verið fylgt nákvæmlega sömu leikreglum og hafa verið í gildi síðastliðin fimm ár, nákvæmlega. Ég hef talið afar mikilvægt að gæta samræmis og hlutleysis við gerð þessara fjárfestingarsamninga og frá ársbyrjun 2014 hef ég fyrir hönd ríkisins undirritað fimm slíka, nú síðast við Matorku. Raunar er það svo að sá samningur hefði fallið undir skilyrði gömlu laganna, væru þau enn í gildi, en verkefnið uppfyllir öll þau skilyrði sem sú rammalöggjöf setti. Og ég leyfi mér aftur að fullyrða að allir þeir fjárfestingarsamningar sem ég hef gert hefðu verið gerðir með sama hætti í tíð síðustu ríkisstjórnar af öllum þremur fyrrverandi iðnaðarráðherrum hennar.

Það hvort við eigum að hafa ívilnanir yfir höfuð er svo allt annað mál. Og það er mikilvægt, sérstaklega í ljósi þessarar umræðu, að við tökum hana á hinu háa Alþingi. Ef við erum sammála um að við þurfum ívilnanakerfi þar til skattkerfi okkar, ef við fáum einhverju um það ráðið sem erum í ríkisstjórn, verður á heimsmælikvarða (Forseti hringir.) og ef við ákveðum að hafa ívilnanakerfi þá spyr ég: Vilja menn hafa það eftir almennum (Forseti hringir.) leikreglum eins og við erum að vinna eftir hér og bíða samþykkis (Forseti hringir.) Alþingis, eða viljum við hafa það þannig að hver og einn ráðherra (Forseti hringir.) geti ákveðið að það gildi sem hann vilji? Ég segi: Höfum reglurnar almennar, og eftir því höfum við farið í þessu máli.