144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

norrænt merki fyrir sjálfbæra ferðamannastaði.

567. mál
[17:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina og vil segja að íslensk stjórnvöld hafa verið því fylgjandi að skoðað verði hvort Norðurlönd geti sameiginlega innleitt merki eða önnur viðmið fyrir það sem geti talist sjálfbærir ferðamannastaðir á Norðurlöndum. Nokkur vinna hefur þegar verið lögð í slíka skoðun af hálfu norrænna vinnuhópa um umhverfismál. Við erum svo heppin að það er akkúrat Íslendingur sem hefur stýrt einu slíku verkefni, verkefni um sjálfbæra neyslu og framleiðslu sem íslenska fyrirtækið Environice stýrði og setti fram í skýrslu sem heitir Sustainability certification of the Nordic tourist destinations árið 2012. Í skýrslunni er jafnframt fjallað um tengslin við norræna umhverfismerkið Svaninn sem er hið opinbera umhverfismerki Norðurlanda sem þau hafa rekið sameiginlega með góðum árangri í 25 ár.

Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að þetta sé áhugavert en þurfi að vinna frekar, m.a. hvað varðar viðmið um sjálfbærni í samhengi ferðamannastaða, skilgreiningar á ferðamannastöðum, fjármögnun o.fl. Þar gæti reynslan af Svaninum jafnframt nýst svo og önnur verkefni á þessu sviði sem unnið hefur verið að í hverju landi fyrir sig. Eins og þarna kemur fram má kannski segja að það sem helst vantar á sé stöðlun eða viðmið og það er nokkuð flókið að finna það út.

Spurningu númer 2, hvort íslensk stjórnvöld hafi beitt sér fyrir því að norræna ráðherranefndin fari að tilmælunum, má svara svona: Öll tilmæli sem berast frá Norðurlandaráði til norrænu ráðherranefndarinnar eru sett í ákveðinn feril á vettvangi þeirrar ráðherranefndar sem á við hverju sinni. Venjan er sú að það land sem gegnir formennsku á hverjum tíma ber í samráði við hin löndin og skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar meginábyrgð á tilmælum og að tilmælum sé svarað samkvæmt þeim reglum sem gilda um tímafresti og annað. Danmörk gegnir formennsku, eins og ég veit að hv. þingmaður veit, í ráðherranefndinni á árinu 2015 og er þegar hafin vinna við að svara þeim tilmælum sem hér er spurt um. Ekki er hefð fyrir því í samstarfi ríkisstjórnanna að eitt land beiti annað þrýstingi til að samþykkja tilmæli frá Norðurlandaráði en áhersla er lögð á að finna mögulega samstarfsfleti eftir því sem tilefni gefst til og þegar löndin telja augljóst að samvinna feli í sér norrænan virðisauka.

Þau tilmæli sem hér um ræðir komu til umræðu á fundi norrænu umhverfisráðherranna á þingi Norðurlandaráðs í október á síðasta ári. Þar kom fram að ferðaþjónusta og útivist er mikilvæg í öllum löndunum og mikil áhersla er lögð á að hlífa náttúrunni og vernda eftir megni. Einnig kom fram að flest landanna hafa þegar komið á einhvers konar vottunarkerfi, bæði hvað varðar gæða- og umhverfismál, og sums staðar er unnið að þróun nýrra vottunarkerfa sem meðal annars snúa að sjálfbærni.

Ég vona að þetta svari að einhverju leyti spurningum fyrirspyrjanda.