144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[14:58]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli og að stofna til þessarar umræðu. Okkur er öllum ljóst að virk samkeppni er gríðarlega þýðingarmikil fyrir kjör almennings sem og fyrir efnahagslífið í heild. Virk samkeppni stuðlar að betri skilvirkni fyrirtækja sem skilar sér í lægra verði og meiri gæðum en líka fjölbreyttara vöruúrvali fyrir okkur neytendur. Það er því afar mikilvægt að við búum svo um hnútana að í atvinnulífinu ríki góð samkeppnismenning og að við tryggjum að samkeppnislögum sé fylgt eftir af festu, enda hjálpar það smærri aðilum að komast inn á markaðinn og styður við nýsköpun í atvinnulífinu. Allt framangreint hjálpar líka til við að auka hagvöxt í efnahagskerfinu.

Eins og málshefjandi gat um kom nýlega fram skýrsla frá Samkeppniseftirlitinu um samkeppni á dagvörumarkaði og mun ég gera niðurstöður hennar að umtalsefni mínu í dag. Með dagvöruverslun er átt við þá verslun sem selur dagvörur, vörur sem tengjast daglegum neysluþörfum fólks, svo sem mat- og drykkjarvörur, hreinlætis- og snyrtivörur.

Við vitum að fákeppni og samþjöppun er víða að finna í íslensku atvinnulífi og hefur dagvörumarkaðurinn þar ekki verið undanskilinn. Hins vegar er jákvætt og kemur fram í fyrrgreindri skýrslu að svo virðist sem samþjöppun á dagvörumarkaði sé að minnka, a.m.k. um stundarsakir, þó að það sé einnig staðreynd að samþjöppun er enn mikil. Það er þó jákvæð þróun að það stefnir í rétta átt.

Það er einnig niðurstaða skýrslunnar, eins og málshefjandi gat um, að verðhækkanir á vöru undanfarið skýrast ekki eingöngu af ytri aðstæðum. Verð á innfluttum vörum hefur ekki lækkað til samræmis við gengisstyrkingu og verðþróun erlendis en á sama tíma er afkoma helstu verslunarsamstæðna góð. Þetta þarf að skoða frekar og þurfa bæði stjórnvöld og verslunin að leggjast á eitt við að fara nánar ofan í þessar upplýsingar.

Ég gerði það að umtalsefni í ræðu minni hjá Samtökum verslunar og þjónustu í síðustu viku að til að hægt sé að halda áfram á þeirri braut að lækka gjöld á vörur og þjónustu, eins og var gert fyrr í vetur með afnámi almennra vörugjalda sem er afar mikilvæg og þörf aðgerð í þágu neytenda, er gríðarlega mikilvægt að verslunin sýni fram á að lækkunin skili sér til neytenda. Hið sama á við um aðra utanaðkomandi þætti, eins og styrkingu gengisins og verðþróun erlendis. Ég treysti versluninni mjög vel til að standa sína plikt í þessum efnum og hvet hana til að skýra niðurstöður skýrslunnar um verðþróun og taka tillit til þeirra ábendinga sem þar er beint til fyrirtækjanna.

Annars stend ég reyndar í þeirri trú að neytendavernd og vitund sé óðum að breytast og muni breytast enn frekar með hjálp tækninnar. Ég get nefnt hér í framhjáhlaupi að fyrir ekki svo löngu veitti ég nýsköpunarverkefninu Strimlinum Gulleggið fyrir árið 2015, en það snýr að því að opnuð er gátt upplýsinga um matvöruverð á Íslandi þar sem neytandinn getur á hverjum tíma séð hvar hagkvæmasta verðið er á vörum og þannig fá verslanir beint virkt aðhald. Ég tel raunar að margt annað í tækniheiminum eigi eftir að hjálpa okkur neytendum í þessum efnum á komandi árum enda tæknin á fleygiferð.

En það er ekki bara verslunin og neytendur sem þurfa að standa sína plikt, við stjórnvöld berum einnig okkar ábyrgð. Þó að afnám vörugjalda hafi verið eitt af stærstu skrefum undanfarinna ára til almennrar lækkunar vöruverðs þarf að skoða fleiri þætti. Eitt af því var hér til umræðu í gær í fyrirspurnatíma, afnám tolla á fatnað og skó, sem ég tel mikilvægt að færa heim, þá ferðatöskuverslun sem á sér stað erlendis einmitt á fatnaði og skóm, og þannig gætum við styrkt um leið íslenska verslun og fataiðnað. Þess vegna fagna ég sérstaklega orðum hæstv. fjármálaráðherra og þeirri endurskoðun sem hafin er í hans ráðuneyti og tel raunar að þær tekjur sem talið er að ríkið yrði af yrðu að lokum ekki svo miklar vegna þess að með þessu mundu umsvif verslunarinnar aukast.

Í skýrslunni er nokkrum ábendingum beint til stjórnvalda um aðgerðir til að draga úr samkeppnishömlum í núverandi regluverki. Sjálf er ég þeirrar skoðunar að hér eigum við inni töluverð tækifæri með því að endurskoða samkeppnishindranir í búvöru- og tollalögum. Við eigum ekki að hræðast slík spor. Sem dæmi um vel heppnaða aðgerð getum við nefnt samkeppnishindranir sem voru afnumdar á grænmetismarkaði sem hefur leitt til aukinnar framleiðslu, lækkaðs smásöluverðs og aukinnar neyslu.

Ég þarf að koma inn á nokkur atriði til viðbótar í minni seinni ræðu en læt (Forseti hringir.) þetta duga þangað til ég kem því frá mér þá.