144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mikilvæga mál á dagskrá. Það er þó hálfhjákátlegt að fylgjast með umræðu stjórnarliðanna, framsóknarþingmannsins og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þar sem þau skjóta hvort á annað undir rós. Það er samt eðlilegt því að þó að hér séu höfð uppi orð um mikilvæga hluti eru það athafnirnar sem skipta máli. Þess vegna er eðlilegt að þingmaður Framsóknarflokksins spyrji hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að auka framlög til Samkeppniseftirlitsins því að það er raunveruleg aðgerð til að stuðla að því að auka samkeppni á þessum markaði sem sárlega skortir.

Ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur gert hið þveröfuga, hefur skorið niður fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins, og kom sér hjá því að svara hinni skýru og einföldu spurningu í allri sinni löngu framsöguræðu um málið. Ráðherra notar hins vegar tækifærið, skýtur föstum skotum á þingmann Framsóknarflokksins og vekur athygli á því hversu mikil hindrun tollar á búvöru séu hér. Ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur rétt fyrir sér í því, það er eitt af þeim atriðum sem lyft er í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Þess vegna er ástæða til að málshefjandinn svari því hvort Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn að hverfa frá hátollastefnunni á búvörunni sem skapar vissulega erfiðleika í samkeppni í dagvöru og dregur úr þeim kostum sem neytendur hafa þar í að sækja vegna þess að það er ekki nóg að tala um samkeppni á dagvörumarkaði, menn verða að vera tilbúnir að gera það sem þarf, Framsóknarflokkurinn að falla frá hátollastefnunni og Sjálfstæðisflokkurinn að leggja fjármuni til Samkeppniseftirlitsins.