144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þau orð sem hann lét falla rétt áðan. Það undirstrikar enn frekar þann vísdóm sem okkar ágæti hæstv. forseti hefur oft sýnt.

Ég kem hér meðal annars til þess að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa í byrjun þessa mánaðar fallist á beiðni fjögurra formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar um að senda erindi til Ríkisendurskoðunar þar sem beðið var um mat stofnunarinnar á þeim hugmyndum sem fram koma í því frumvarpi sem er á dagskrá á eftir.

Það eru fordæmi fyrir því að þegar ríkisstjórn leggur fram hugmyndir að miklum breytingum á strúktúr tiltekinna stofnana að gert sé mat af hálfu Ríkisendurskoðunar á þeim og hagkvæmni þeirra og ávinningum og hugsanlegum göllum. Á það féllst hæstv. forseti og það erindi er nú hjá Ríkisendurskoðun. Því vil ég í fyllstu vinsemd beina því til hæstv. forseta að málinu sem er hér á eftir á dagskrá verði frestað og að beðið verði með að taka það á dagskrá þangað til mat Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.