144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem hér liggur fyrir byggir á, eins og komið hefur fram áður, úttekt sem gerð var af óháðum sérfræðingi varðandi þennan málaflokk. Sá ágæti sérfræðingur fékk algjörlega frjálsar hendur um það hvernig hann legði þetta mál upp. Niðurstaðan er eftirfarandi: Ákveðið var að leggja fram frumvarp sem væri í þessa átt án þess að fara ofan í eða gera einhverjar breytingar á meginmarkmiðum þróunarsamvinnu sem ágætissátt hefur verið um. Eins og fram hefur komið er hér fyrst og fremst um stjórnskipulegar breytingar að ræða.

Það er pólitísk sátt um meginmarkmið stefnunnar, hvernig við skulum vinna, hvernig verkefnum skuli háttað til að reyna að hjálpa og bæta líf þeirra sem minnst mega sín. Ef þessi stjórnskipulega breyting verður að pólitísku bitbeini skal ég játa það að það er miður.