144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:15]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það síðasta sem hv. þingmaður nefndi, stefnumótun og það allt saman, er einmitt það sem Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt að sé haft á sömu hendi og innan sömu veggja. Það hefur margoft komið fram og það eru hlutir sem oft hefur þurft að taka tillit til.

Hv. þingmaður nefndi það sem ég benti á í ræðu minni um niðurskurðinn 2013 hjá utanríkisráðuneytinu, hvort það gæti verið ástæðan að ná þarna í svo sem tíu starfsmenn inn á skrifstofuna og fara svo að deila verkefnum og nota menn í annað. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að enginn sparnaður sé af þessu og það eigi heldur ekki að auka útgjöld. Það leyfi ég mér að efast um, virðulegi forseti. Hv. þingmaður situr með mér í ágætri nefnd, atvinnuveganefnd, og á einum eða tveimur fundum hafa komið gestir til að fjalla um frumvarp um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Það frumvarp hefur nánast ekki verið rætt eftir þá gestakomur vegna þeirrar meðhöndlunar á starfsfólki sem þar er boðuð, þvílík meðhöndlun að það hálfa væri nóg, eins og maðurinn sagði, fær algjöra falleinkunn.

Það sem fjármálaráðuneytið setur fram og fjallað er um á síðustu blaðsíðunni leyfi ég mér að efast um að geti gengið eftir. Halda menn virkilega að það verði ekki neinir sem muni nýta sér biðlaunarétt? Halda menn virkilega að ráðuneyti geti búið til nákvæmlega sambærilegt starf sem geri að verkum að menn geta notað einhver lög til að setja þar inn? Fyrir utan að þeir sem voru ráðnir eftir 1. júlí 1996 eiga rétt á biðlaunum, kjósi þeir að hætta vegna breytinga. Það er verið að leggja niður stofnun sem þeir vinna hjá og færa störfin inn í ráðuneytið. Hvað ef maður sem hefur vinnu hjá stofnuninni vill ekki vinna í ráðuneytinu? Auðvitað er biðlaunaréttur.

Virðulegi forseti. Það er þess vegna sem fjármálaráðuneytið hefur gefið út í handbók lýsingu á því hvernig skuli standa að svona málum, að það sé ekki bara (Forseti hringir.) að breytingar eigi að skila hlutaðeigandi stofnun, ríkissjóði eða notendum þjónustunnar ávinningi o.s.frv. (Forseti hringir.) heldur taka meira tillit til starfsmanna. Það sýnist mér að hafi ekki verið gert (Forseti hringir.) í þessu frumvarpi.