144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fór ágætlega yfir það að hún áttar sig ekki alveg á því hvernig stendur á því að þetta frumvarp er komið fram og fær ekki nægilega faglegan rökstuðning fyrir því í skýringum með frumvarpinu, ef ég skil hv. þingmann rétt. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi kynnt sér tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Markmiðin með tillögunum sem þau setja fram eru að styrkja markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög næstu árin, gera ríkisbúskapinn sjálfbæran til lengri tíma o.s.frv. Það er líka að bæta hagkvæmni og árangur í ríkisrekstri, að rekstur ríkisins verði skilvirkari og að auka framleiðni.

Í 24. tillögu hagræðingarhópsins kemur fram með, með leyfi forseta:

„Utanríkisráðherra móti framtíðarstefnu um skipulag og vinnubrögð utanríkisþjónustunnar. Meðal annars verði horft til samspils og verkaskiptingar utanríkisráðuneytisins, annarra ráðuneyta, Íslandsstofu, Þróunarsamvinnustofnunar og sendiskrifstofa. Þróun utanríkisþjónustu nágrannalandanna verði skoðuð og leitað fyrirmynda um nýsköpun sem bætt getur hagkvæmni og árangur.“

Ég vil spyrja hv. þingmann og biðja hana að fara yfir það með okkur hvort það geti hugsanlega verið dagskipun til hæstv. utanríkisráðherra að nú skuli hann finna út úr því hvernig hann ætli að uppfylla og koma til móts við tillögu hagræðingarhópsins?