144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var einkennileg röksemdafærsla hjá ráðherranum eins og margt annað sem var í máli hans. Hann segir að haft hafi verið samráð við alls konar stofnanir en það hafi allt verið óformlegt. Ekkert af því kemur fram í greinargerð með þeim orðum. Hann segir: Jú, jú, það voru auðvitað ekki allir á sama máli. Það er ekkert reifað í greinargerðinni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna ekki var hægt að svara þessari 21 spurningu sem við báðum um, níu þingmenn, áður en málið kom hér til umræðu. Var það vegna þess að þá hefði komið fram gagnrýni á þá einu leið sem ráðherrann telur rétta? Er það það sem ráðherrann vill ekki sýna?

Ég vil líka spyrja ráðherrann hvort það sé almennt hans skoðun að ef það eigi að skoða eitthvað eða líta á eitthvað eigi að taka það og brjóta. Ég spyr ráðherrann: Hvers vegna í ósköpunum þarf að gera við það sem er í lagi, eins og nefnt hefur verið? Hvernig getur hann núna í lok umræðunnar sagt það sem hann segir, þegar hann sagði í upphafi umræðunnar, í andsvörum, að allt væri í lagi, það væri enginn tvíverknaður, það væri ekkert sem rækist á, það gengi allt mjög vel. Núna allt í einu í lok umræðunnar er þetta allt orðið ómögulegt. Getur hann útskýrt þessi sinnaskipti fyrir mér?