144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það frumvarp sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. ráðherra þjóni mjög jákvæðum tilgangi eins og ég hef skilið það. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta tengist með einhverjum hætti möguleikum eða getu Íslands til að tálma eða koma í veg fyrir að svipað gerist og henti hér á síðasta áratug þegar um íslenska lofthelgi fóru flugför sem voru í borgaralegri eigu en nýtt af erlendum leyniþjónustum og, eins og hæstv. ráðherra veit, til að flytja fanga á milli landa þar sem þeir sættu ómannúðlegri meðferð. Ég spyr hann hvort efni frumvarpsins tengist því að einhverju marki eða hvort það gefi íslenskum stjórnvöldum einhvers konar sterkara viðnám til að koma í veg fyrir það. Eins og hæstv. ráðherra veit, gott ef hann tók ekki sem þingmaður þátt í umræðum um það á sínum tíma, tel ég og fleiri að gistivinátta Íslendinga hafi verið misnotuð.

Sömuleiðis langar mig fyrir forvitni sakir að spyrja að því er varðar frystingu eigna sem bersýnilega er til þess að tálma flutningi fjármagns sem á að renna til að ýta undir hryðjuverkastarfsemi hvort það séu einhver dæmi um að þau ákvæði sem eru nú í lögum hafi verið nýtt beinlínis í svipuðum tilgangi.