144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

innritunargjöld öryrkja í háskólum.

547. mál
[17:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er svo að mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi í framhaldi af fyrirspurninni erindi til allra háskólanna sjö þar sem þeir voru beðnir um að gera grein fyrir því hvort viðkomandi háskóli veitti afslátt af innritunar- eða skólagjöldum til öryrkja.

Í einkareknu háskólunum þremur, þ.e. Háskólanum í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst, er almenna reglan sú að veita ekki afslætti af skólagjöldum og gildir það fyrir alla nemendur. Hvað varðar opinberu háskólana, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann á Hólum, veita tveir þeir fyrsttöldu ákveðna afslætti til öryrkja en í svörum frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum á Hólum kom fram að slíkt hefði ekki tíðkast eða þá að ekki hefði reynt á slíkt. Skrásetningargjald nemenda við Háskóla Íslands sem búa við örorku eða fötlun og hafa örorkuskírteini eða fá endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins er 55 þús. kr. í stað 75 þús. kr. sem annars gildir og er sú upphæð miðuð við fasta krónutölu og er óháð því hvort nemendur eru skráðir í heilt eða hálft háskólanám. Háskólinn á Akureyri veitir öryrkjum 50% afslátt af skrásetningargjöldum gegn staðfestingu um 75% örorkumat.

Hvað varðar síðari lið fyrirspurnar hv. þingmanns um stefnu mína varðandi afsláttarkjör til öryrkja vil ég taka fram að ekki liggur fyrir formleg stefnumörkun í ráðuneytinu hvað varðar afsláttarkjör opinberra háskóla til öryrkja af innritunargjöldum. En þá vil ég nefna að unnið er að stefnumótun um háskóla- og vísindamál innan ráðuneytisins þar sem meðal annars er fjallað um aðgengi að háskólanámi. Ég vil sérstaklega nota tækifærið og þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina þar sem það gefur einmitt tilefni til þess að skoða það mál sérstaklega.