144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nýframkvæmdir í vegamálum.

565. mál
[18:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma líka inn í þessa umræðu og tek undir með fyrirspyrjanda að þetta er með því daprara sem maður hefur séð. Fulltrúar Vegagerðarinnar komu á fund fjárlaganefndar á dögunum, eða rétt fyrir páska. Þeir voru frekar niðurlútir fannst okkur, lítið hægt að gera og nánast ekkert um nýframkvæmdir. Ég ræddi það mikið við fjárlagagerðina, bæði síðast og þar áður og fannst ekki rétt að það skyldu verða eftir fjármunir í viðhaldi sem væru teknir í snjómokstur. Vissulega var snjómoksturinn að fara fram úr, en viðhaldið var og er náttúrlega orðið ótæpilegt eins og hér hefur verið komið inn á. Þannig að hæstv. ráðherra hefur að minnsta kosti okkur þingmenn sem hér hafa tekið til máls með sér í því að reyna að kreista út meira fé til áætlunarinnar og ég held að við bíðum óþreyjufull eftir því að samgönguáætlun komi fram þannig að við sjáum (Forseti hringir.) hvort framkvæmdir sem átti t.d. að bjóða út í vor og búið er að fresta, (Forseti hringir.) samanber Dettifossveg og margt fleira, eru þar inni.