144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að gera athugasemdir við orð hv. þingmanna Framsóknarflokksins sem segja að stjórnarandstaðan hafi verið að röfla í ræðustólnum í gær. Það er auðvitað þannig að rödd hvers einasta þingmanns á þessari samkomu skiptir máli og hver einn einasti þingmaður hér hefur rétt á því að koma hingað upp og lýsa skoðunum sínum án þess að hann sé kallaður röflari af hv. þingmönnum. Það er algjörlega fráleitt.

Þegar forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, landsfeðurnir, sem eru reyndar ekki miklir landsfeður heldur meira landssynir, mæta ekki hérna til þess að útskýra orð sín og gerðir eftir langa fjarveru og það misræmi sem augljóst er á milli stjórnarflokkanna, þá er fundarstjórn forseta eini mögulegi vettvangurinn fyrir stjórnarandstöðuna til þess að lýsa skoðunum sínum. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins verð að þola eins og aðrir þingmenn hér inni að allir þingmenn eiga rétt á því að koma hingað upp og lýsa skoðun sinni á því hvernig landinu er stjórnað.

Þegar hæstv. forsætisráðherra hagar sér eins og einræðisherra í Tinnabók og heldur að hann geti bara birst á tröppunum á Stjórnarráðinu og tilkynnt um tilfærslu á byggingum, nýjar byggingar sem smíða eigi, útdeilt styrkjum í SMS-um hingað og þangað, fært til umdæmismörk lögregluyfirvalda o.s.frv. með pennastrikum, þá verða þingmenn Framsóknarflokksins einfaldlega að þola að það sé gagnrýnt. (BirgJ: Já.) Þeir geta ekki skákað í því skjóli að menn hafi ætlað að koma hingað inn á þing og boða ný stjórnmál þegar það er gagnrýnt, að verið sé að svíkja það loforð, vegna þess að það eru ekki bara gamaldags vinnubrögð, það eru léleg vinnubrögð, það eru lélegir stjórnmálamenn sem haga sér með þeim hætti og það er, svo (Forseti hringir.) ég endurtaki það fyrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins, ævintýralega léleg ríkisstjórn við völd í þessu landi. (Gripið fram í.)