144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hennar. Henni varð tíðrætt um leiðsögn þjóðarinnar og að þeir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á lýðræðislega skipuðu Alþingi þyrftu leiðsögn þjóðarinnar. Ég velti því fyrir mér af því að mér fannst það ekki koma nógu skýrt fram hjá hv. þingmanni, framsögumanni málsins, hver afstaða hennar flokks eða fylkingar sé í þessu máli. Er það markmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að vera í viðræðum við Evrópusambandið um aðild að því? Og jafnvel ef ekki, hvert yrði markmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í slíkum aðildarviðræðum?

Ég velti því svo líka fyrir mér og það væri ágætt ef hv. framsögumaður gæti imprað á því eða útskýrt það örstutt fyrir mér hvað það sé í þessu sérstaka máli, málinu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu, sem sé svo stórt að það þurfi leiðsagnar þjóðarinnar við, að lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Alþingi þurfi leiðsögn þjóðarinnar til að geta tekið afstöðu í því, í samanburði við önnur mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi sem eru stór hagsmunamál þjóðarinnar til framtíðar eins og t.d. virkjanamál, uppbyggingu nýs spítala og áfram mætti lengi telja. Ég ítreka það og árétta að ef ég skil tillöguna rétt er hún bara þingsályktunartillaga um aðildarviðræður, ekki um inngöngu heldur viðræður, en hvað er það í þessu máli sem er svo stórt að það þurfi leiðsagnar þjóðarinnar við?