144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að velta því fyrir mér hvort hv. þm. Katrín Júlíusdóttir er sammála því mati sem mér fannst mega greina úr svörum hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur hér áðan, að með einhverjum hætti þyrfti að fara fram endurmat á þeim forsendum sem ættu að liggja til grundvallar því að hefja viðræður við Evrópusambandið að nýju. Ég velti því fyrir mér með öðrum orðum hvort hv. þingmaður telur að hægt sé að hefja viðræður að nýju á sama grundvelli og gert var á síðasta kjörtímabili í ljósi þess að aðstæður hafa breyst að ýmsu leyti og í ljósi þess að meðal annars kom fram að lungann úr síðasta kjörtímabili fengust ekki umræður um sjávarútvegsmál við Evrópusambandið, sem var þó kannski sá þáttur viðræðnanna sem mesta forvitni vakti og menn töldu að gætu orðið hvað erfiðastar og skiptu hvað mestu máli í sambandi við þessar viðræður.

Ég velti þessu upp: Telur hv. þingmaður að hægt sé að — við getum orðað það svo — halda áfram viðræðum eins og ekkert hafi í skorist, eða telur hv. þingmaður að við þurfum með einhverjum hætti að endurskoða forsendur, að við þurfum með einhverjum hætti að ganga til viðræðna á grundvelli nýrra skilyrða? Eða telur hv. þingmaður að slíkar pælingar séu óþarfi á þessari stundu?