144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var staðið mjög vel að umsóknarferlinu og lá fyrir mjög vönduð greinargerð utanríkismálanefndar, meirihlutaálit. Þar er farið vandlega yfir þau samningsmarkmið sem Íslendingar vilja ná. Ég vil ekki nota orðalagið „taka upp að nýju“ í sjálfu sér, ég vil bara halda áfram viðræðunum á nákvæmlega þeim grunni sem þær voru hafnar á. Ég held að það hafi verið mjög gott.

Varðandi sjávarútvegsmálin er svolítil einföldun að segja að þau hafi ekkert verið rædd við Evrópusambandið á síðasta kjörtímabili. Auðvitað veit hv. þingmaður að þó svo að kaflinn hafi ekki verið opnaður og honum ekki lokað fóru viðræður fram allt síðasta kjörtímabil við fulltrúa Evrópusambandsins, við fulltrúa þjóðríkjanna og kynning á málstað Íslendinga fór fram allt síðasta kjörtímabil. Það er mat manna og kemur ágætlega fram í skýrslu Alþjóðamálastofnunar að þær samræður hafi gengið mjög vel og vaxandi skilningur væri á því að vegna sérstöðu Íslands, vegna þeirrar augljósu sérstöðu þess að vera eina eyríkið í Norður-Atlantshafi sem yrði aðili að Evrópusambandinu og með svona rosalega ríka hagsmuni af sjávarútvegi, þyrfti að sníða sérlausn fyrir það. En sérlausn er ekki og yrði ekki — nú ætla ég að gera ráð fyrir að við höldum áfram þessum viðræðum, enda ekki tilefni til annars, þær gengu vel — eina leiðin til að ná fram markmiðum Íslendinga í sjávarútvegi. Það getur líka verið að það sé rúm fyrir túlkanir innan stofnsáttmála Evrópusambandsins. Það eru ákvæði um fjarlægar eyjabyggðir eins og Kanarí og Azoreyjar sem geta átt við okkur og einnig er innan regluverks (Forseti hringir.) og lagaumgjarðar Evrópusambandsins sjálfs, eins og það er núna, býsna ríkt svigrúm, líkt og í reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Það eru fjölmargar (Forseti hringir.) leiðir fyrir Íslendinga til að láta á það reyna (Forseti hringir.) hvort þeir fengju ekki viðunandi lausn í sjávarútvegi.