144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef við rifjum upp meginþætti varðandi sjávarútvegsmálin sem ljóst var að gætu valdið erfiðleikum þá er fyrir utan fjárfestingarnar verið að tala um samningsforræði vegna deilistofna, samningsforræði á alþjóðavísu sem Evrópusambandið hefur samkvæmt grundvallarreglum sínum á sínu forræði, ekki einstakra aðildarríkja, og hins vegar stjórn í fiskveiðilögsögunni, og áhugavert ef hv. þingmaður telur að þessi atriði hefðu ekki verið fyrirstaða.

Ég velti til dæmis fyrir mér í þessu sambandi samningsforræði varðandi deilistofna, hvort það hefði að mati hv. þingmanns verið umsemjanlegt af Íslands hálfu eða hvort hann telji líklegt að Evrópusambandið hefði undir einhverjum kringumstæðum fallist á að falla frá sínu samningsforræði fyrir hönd Evrópusambandsríkja í málefnum af því tagi.