144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gott og vel. Ég skil hv. þingmann þá þannig að honum lítist ekkert á að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða næstu alþingiskosningum eða alla vega að sömu vandamál séu til staðar við þá aðferð.

Þá langar mig að ítreka hinn hluta spurningarinnar. Spólum aftur til baka í tíma þegar tillagan um að slíta viðræðum var lögð fram af hæstv. utanríkisráðherra. Segjum að hún hefði farið í gegnum þingið og segjum að 22,5% kjörbærra manna hefðu þá krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál, um að slíta viðræðunum — athugið, ekki um að halda þeim áfram á þessu kjörtímabili eða jafnvel því næsta, sú spurning yrði skilin eftir til næstu alþingiskosninga. Ef tillagan um að slíta viðræðum yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu undir þessum kringumstæðum mundi hv. þingmaður þá styðja það að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ef ekki, þá langar mig að spyrja: Undir hvaða kringumstæðum væri hv. þingmaður hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu?