144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg talað fyrir sjálfan mig með það að ég tel að þjóðaratkvæðagreiðslur geti almennt verið til góðs. Ég geri hins vegar þá kröfu að niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu hafi einhverja þýðingu, hafi eitthvert gildi, geti leitt til niðurstöðu.

Ef við skoðum þessa þingsályktunartillögu þá fjallar hún um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Segjum nú að hún fari fram og niðurstaðan verði sú að halda áfram viðræðum. Við erum öll sammála um það, og hefur komið margoft fram hjá stjórnarandstöðunni líka, að ef við fáum ekki full yfirráð yfir sjávarauðlindinni sé ekki um neitt að semja. En niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er að halda áfram viðræðum sem þýðir að við getum ekki hætt af því að við fáum ekki að halda yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni. Þess vegna er svona þjóðaratkvæðagreiðsla ómarktæk að mínu viti. Hún getur aldrei leitt til niðurstöðu.

Ég vil fá að vita afstöðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur hvað þetta varðar: Hvað gerist, hvað eigum við að gera, eftir niðurstöðu um að halda áfram viðræðum þegar það strandar á því að við fáum ekki að ráða yfir sjávarauðlindinni?

Um hitt atriðið vil ég spyrja líka af því að hv. þingmanni er svo umhugað um lýðræðið (LMR: Sjálfstæðisflokkinn.) og Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig var það þegar VG ákvað að sækja um, þrátt fyrir stefnuna og þrátt fyrir skýr loforð um að gera það ekki án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig var það fyrir hv. þingmann að samþykkja það síðan að sækja um? Hún hafði engar áhyggjur af lýðræðinu þá.