144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hvort þingsályktunartillagan er þingtæk, þetta eru mjög áhugaverðir punktar og athyglisverðir sem hv. þingmaður nefnir. Svarið við því er líklega já. Það er hægt að leggja fram þingsályktunartillögur jafnvel þó að þær, væru þær samþykktar, stangist á við eitthvað annað. Þá mundi ráðherra ekki vera skuldbundinn að framfylgja þeim. Mér virðist þetta vera staðan eftir að ég hef verið að fylgjast með málum í þinginu varðandi þingsályktunartillögu. Hún virðist vera þingtæk. Hægt er að leggja fram alls konar bull hér á Alþingi og ef menn greiða atkvæði með því sitja þeir einfaldlega uppi með það bull og spæld egg á andlitinu. Þannig að hún virðist vera þingtæk.

Hv. þingmaður segir að raunverulega sé búið að slíta viðræðunum en það er ekkert endilega víst, Evrópusambandið vill meina ekki. Ráðherra var margsaga varðandi þetta. Hann byrjar á því að segja: Já, það má líta á þetta sem ... Og svo: Nei, við erum ekki búnir að slíta. Og síðan: Jú, við erum búnir að slíta — ja, það skiptir ekki máli hvaða orð menn nota o.s.frv.

Það er kannski ágætt að hlusta á hvað forseti þingsins sagði um þetta mál þegar verið var að ræða nákvæmlega þetta form; nú ræddi þingmaðurinn um form. Forseti þingsins segir í þessum ræðustól að bréf utanríkisráðherra sé diplómatísk aðferð til að láta aðildarviðræðurnar enda án þess að umsögnin sé dregin formlega til baka. Það er mat forseta og margra annarra að ekki sé formlega búið að draga hana til baka. Það er verið að reyna að fá Evrópusambandið til að gera það. Það virðist raunverulega ekki vera búið að ljúka þessum viðræðum. Meira að segja þó að þingsályktunartillagan væri þingtæk sem slík, þó að ekki væri sagt að hefja ætti viðræðurnar aftur, þá virðist sem svo að ekki sé búið að slíta viðræðunum.