144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands og framhald viðræðna við Evrópusambandið. Margt hefur verið sagt um þessa tillögu og það er algjörlega ljóst að í þessu máli takast á ólík sjónarmið, ekki bara í þingsal heldur og úti í samfélaginu. Það eru þeir sem telja að ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið, fá hingað samning, leggja hann fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar, og hinir sem telja að slíta eigi viðræðum við Evrópusambandið og bera það ekki undir þjóðina. Einnig er til sá hópur sem vill fá að taka þátt í því að ákveða hvort við ljúkum viðræðum og fram hafa verið lagðir undirskriftarlistar þar sem skorað er á þingmenn að verða við þeirri beiðni.

Það er líka ljóst að þeir flokkar og flokksstofnanir sem mynda ríkisstjórn og meiri hluta á þingi telja að þjóðinni sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan og hyggjast ekki halda áfram viðræðum við Evrópusambandið. En þeir hinir sömu sögðu engu að síður í aðdraganda kosninga að þjóðin ætti að koma að þeirri för.

Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stendur einfaldlega, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki“ — ég legg áherslu á það, forseti — „verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þetta er í sáttmála stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hvergi í stjórnarsáttmálanum er talað um að slíta eigi viðræðum án aðkomu þjóðarinnar eða slíta eigi viðræðum almennt, heldur að ekki skuli haldið lengra í þeim nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er skýrt, virðulegur forseti, og ætti að vera öllum þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ljóst. Þetta er stjórnarsáttmálinn og hann er orðaður með þessum hætti.

Það er hins vegar jafn ljóst, virðulegur forseti, að í þessum tveimur flokkum takast menn á. Við sjálfstæðismenn höfum tekist á um þetta umdeilda mál á mörgum landsfundum eins og um mörg önnur mikilvæg mál. Mér er fullljóst, og það þarf ekkert að segja mér það mörgum sinnum, að á landsfundum Sjálfstæðisflokksins er ég í minni hluta um þá skoðun mína að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og leggja samninginn fyrir þjóðina. En ég er þess jafnframt fullviss að margir frjálslyndir hægri menn eru mér sammála, bæði innan flokks og utan.

Í ljósi þess að mér hefur margoft innan míns flokks og stjórnarsamstarfsflokksins verið legið á hálsi fyrir þá skoðun sem ég hef í þessu máli og haldið henni til streitu vil ég láta þess getið, virðulegur forseti, að fyrir kosningarnar 2013 veittu sjálfstæðismenn í Suðvesturkjördæmi mér brautargengi í 2. sæti í prófkjöri flokksins, vitandi um skoðun mína í þessu mikilvæga máli. Ég tel því að þegar ég tala í Evrópumálum og held mig við mína skoðun sé ég ekki að ganga á svig við kosningaloforð mín við kjósendur Sjálfstæðisflokkinn og hef aldrei gert og mun ekki gera.

Hæstv. forseti. Á síðasta þingi var lögð fram skýrsla þar sem ég gat fundið æðimargt sem studdi þá ákvörðun mína og sannfæringu að ljúka ætti viðræðum við Evrópusambandið og bera samninginn undir þjóðina. Ég er hins vegar jafn viss um að í þeirri skýrslu var líka hægt að finna þætti sem styðja skoðun þeirra sem eru andsnúnir aðildarviðræðum og inngöngu í Evrópusambandið

Í allri þessari umræðu og enn þann dag í dag er fullyrt að engar undanþágur og sérlausnir sé að finna hjá Evrópusambandinu til handa neinni þjóð. Samt er hægt að benda á og menn vita að ýmis lönd hafa fengið undanþágur, sérlausnir eða hvaða orð menn vilja nota. Nefnd hefur verið sérlausn Dana varðandi eignarhald á fasteignum. Sjálf nefndi ég í umræðunni um þessa margumræddu skýrslu tvo þætti hjá Álandseyjum, sem eru sérlausnir. Í fyrsta lagi heldur réttur til að kaupa og eiga fasteignir á Álandseyjum gildi sínu eins og hann var 1. janúar 1994. Það þýðir að grundvallarforsendan er sú að til þess að geta átt fasteignir á Álandseyjum verður maður að hafa þar ríkisborgararétt. Þetta er undanþága, virðulegur forseti, sem stendur enn. Í öðru lagi eru Álandseyjar taldar vera þriðja ríkis svæði samkvæmt reglugerð nr. 77/888/EEG, sem þýðir að eyjarnar eru fyrir utan skattsvæði ESB og m.a. eru skatt- og tollfrjálsar vörur seldar áfram í millilandasiglingum og flugi milli eyjanna og ESB. Af hverju? Jú, vegna þess að þessar siglingar eru lífsnauðsynlegar fyrir efnahag Álandseyinga. Þegar maður finnur slíkar varanlegar undanþágur sem eru beintengdar og lífsnauðsynlegar fyrir efnahag einstakra þjóða hef ég þá trú að sú sérstaða sem sjávarútvegurinn hefur á Íslandi og hefur haft í íslensku efnahagslífi frá örófi alda verði virt í samningum við Evrópusambandið.

Það hefur líka verið rætt í þessari umræðu allri að fullveldi þjóðar okkar sé ógnað. Ég verð oftar en ekki undrandi á þeirri umræðu í ljósi þess að ég get ekki séð að fullveldi annarra þjóða sem eru innan Evrópusambandsins hafi verið ógnað. Ég lít ekki svo á að fullveldi Þýskalands, Frakklands, Bretlands, Hollands eða Belgíu og fleiri landa sé ógnað vegna veru þeirra í Evrópusambandinu. Við erum hins vegar þegar, með aðild okkar að EES, að framselja ákveðið vald með þeim tilskipunum og gerðum sem við göngumst undir, en ég er þeirrar skoðunar að fullveldi okkar sé ekki ógnað, heldur erum við í samvinnu og samstarfi við aðrar þjóðir, samstarfi og samvinnu sem skiptir íslenska þjóð máli.

Virðulegur forseti. Að lokum. Það er dálítið merkilegt í allri svona umræðu um jafn stór mál og þetta að þjóðin verður alltaf að sérstöku mengi fyrir okkur, fyrir þá sem vilja slíta viðræðunum og fyrir þá sem vilja halda þeim áfram. Þá verður þjóðin að mengi sem hvor hópurinn um sig getur vísað til.

Það er í mínum huga alveg sama hversu erfitt eða þungt verkefnið er, það þarf með einhverjum hætti að útkljá þá deilu sem ríkir um aðildarviðræður við Evrópusambandið, inngöngu í Evrópusambandið, hvort ljúka eigi viðræðum, slíta eigi viðræðum eða halda þeim áfram.

Virðulegur forseti. Árið 2009 greiddi ég atkvæði með tvöfaldri atkvæðagreiðslu, þjóðaratkvæðagreiðslu, annars vegar að bera það undir þjóðina hvort hefja ætti þá för að fara í aðildarviðræður að Evrópusambandinu og hins vegar að leggja ætti samning þegar hann væri tilbúinn til þjóðaratkvæðagreiðslu þjóðinni til synjunar eða samþykktar. Ég er enn þeirrar sömu skoðunar að við eigum að spyrja þjóðina hvort hún telji að við, Íslendingar, eigum að halda viðræðunum áfram eða ekki. Hún, þjóðin sem við svo oft og gjarnan viljum vísa til, á að ráða í þessu mikilvæga máli. Við erum þjóðkjörnir fulltrúar. Við erum fulltrúar þjóðarinnar. Við erum fulltrúar ólíkra hópa samfélagsins. Við erum líka fulltrúar ólíkra flokkahópa, en við erum fyrst og síðast þjóðkjörnir fulltrúar. Þegar þingheim greinir svo á, í þessu máli og eins og var árið 2009, eigum við sem þjóðkjörnir fulltrúar að hafa kjark til þess að leggja málið í hendur þjóðarinnar.