144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég velti mikið fyrir mér eins og fram hefur komið lýðræðisvinklinum á þessu öllu saman, en nú voru hvorki sá sem hér stendur né hv. þm. Óttarr Proppé á þingi á seinasta kjörtímabili, kannski svolítið auðvelt fyrir okkur að ímynda okkur að við hefðum gert hlutina öðruvísi en við hefðum kannski gert ef við hefðum verið á þingi. En mér finnst svo mikilvægt í allri þessari umræðu að lýðræðisprinsippið sé í hávegum haft og í raun og veru lít ég á tillöguna ekki sem spurningu um Evrópusambandið fyrst og fremst, heldur fyrst og fremst um lýðræðisprinsippið.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, jafnvel bara með hliðsjón af sögunni, hvort hv. þingmaður telji að hann hefði á síðasta kjörtímabili stutt þá tillögu að fara með spurninguna í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið var í aðildarviðræður.

Mér finnst svolítið mikilvægt að við spyrjum okkur öll þessarar spurningar, vegna þess að sumir þingmenn hafa lýst því að ef þeir fengju valið aftur í sínar hendur þá mundu þeir velja öðruvísi. Fólk lærir jú sem betur fer, meira að segja þingmenn.

Ástæðan fyrir því að mér þykir svolítið mikilvægt að við veltum þeirri spurningu upp er sú að hér er skortur á umboði og lögmæti að því er virðist. Ég vil meina að ef þetta mál hefði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu til að byrja með, jafnvel þótt hún hefði bara verið symbólsk, væri lögmætið skýrt, seinustu alþingiskosningar hefðu litið allt öðruvísi út og sér í lagi kosningabaráttan og ég vil meina að spurningarnar sem lægju fyrir okkur væru öðruvísi og mun skýrari og eðlilegri en raun ber vitni. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um það.