144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði að nefna að einhverju leyti það sama og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi, að vinnubrögðin á Alþingi eru ansi fyrirsjáanleg. Það þýðir ekki að þau séu fyrirsjáanleg að því leyti að maður geti skipulagt sig, heldur fyrirsjáanleg að því leyti að maður getur eiginlega ekkert skipulagt sig. Nú er komið fram yfir þá dagsetningu sem okkur er gefin til að leggja fram ný þingmál, skiljanlega, en samt lítur út fyrir að það gætu komið ný þingmál. Það er boðað þingmál, ef ég skil rétt sem ég er alls ekkert viss um að sé tilfellið, um stöðugleikaskatt sem hv. þm. Karl Garðarsson kvartaði undan áðan að stjórnarandstaðan væri ekki að hrópa húrra fyrir. Mig langar að útskýra hvers vegna það er. Það er vegna þess að sú umræða sem þarf að eiga sér stað til að maður skilji fyrirbærið hefur ekki átt sér stað. Að hluta til hefur sú umræða ekki átt sér stað vegna þess að hæstvirtir formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru ekki til staðar til að svara spurningum á mánudaginn var. Við fórum yfir þetta á þeim tíma. Enn og aftur fyrirsjáanlegt og því miður heldur dæmigert.

Nú stefnir í að meira verði að gera en starfsáætlun segir til um — eins og mátti búast við. Sömuleiðis að við eigum erfitt með að sjá með meira en örfárra daga fyrirvara hvað lendi á fundum nefnda, hvað þá þingfundi. Seinna meir á sér hér stað meira og meira brölt á þinginu þar til að því kemur að menn semja um hvað eigi að komast í gegn og hvað ekki. Þetta er óttalegt brölt og þetta er svona trekk í trekk.

Ég legg til að við gerum eitthvað í því til að laga þetta. Ég vænti þess að allir vilji laga þetta vegna þess að hér kvartar stjórnarandstaðan yfir meiri hlutanum og meiri hlutinn yfir minni hlutanum. Viljum við ekki leysa þetta? Það er nefnilega hægt að leysa þetta. Við þurfum bara að vilja það. Við þurfum að sýna þann vilja í verki þannig að ég legg til að við höldum sumarþing að þessu sinni, klárum þessi mál og hefjumst handa við að bæta þau.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.