144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé algjört hneyksli hvernig hæstv. ráðherra ætlar að úthluta þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar sem kom inn í lögsöguna fyrir ekki svo mörgum árum. Þetta er sannkallaður gjafakvóti sem þessir gjafakvótaflokkar sem nú eru við völd ætla að færa ákveðnum aðilum í hendur með framsali og braski í framhaldinu.

Mér heyrist sem engir séu sérstaklega ánægðir með þetta. Landssamband smábátaeigenda er mjög óánægt og telur að þetta rústi þeim útvegi sem það hefur verið að fara út í í makríl og byggja sig upp með miklum tilkostnaði. Við þekkjum að stóru skipin í uppsjávargeiranum þurftu ekki að kosta miklu til til að geta veitt makríl vegna þess að þau voru með búnað vegna loðnuveiða og síldveiða sem þau gátu nýtt.

Það að breyta þessu svona í fjármuni á einni nóttu, þegar og ef þetta frumvarp verður samþykkt, er algjört (Forseti hringir.) hneyksli sem á ekki að líðast. Ég vona að þjóðin rísi upp. Hvað er að því að leigja þetta innan ársins og setja lagastoð undir það, hæstv. ráðherra?