144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:35]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ágæta ræðu. Ég get verið sammála henni að sumu leyti.

Hv. þingmaður gerir svolítið mikið úr því að verið sé að rétta útgerðarmönnum eitthvað, að verið sé að gefa mönnum kvóta. Hún talar um þetta gjafakerfi. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig hefði hún haft þetta? Hvernig hefði hún viljað hafa þetta? Hefði hún viljað bjóða þetta upp? Finnst hv. þingmanni ekki nóg að borga 10 kr. aukagjald á hvert kíló í sex ár — eða guð má vita hvað það verður lengi — til viðbótar við það veiðigjald sem reiknað er?

Hv. þingmaður ber hag smábátaeigenda fyrir brjósti, hún hefur alltaf gert það, þannig að ég spyr: Hvað finnst henni um í fyrsta lagi að smábátaeigendur greiði þetta viðbótargjald? Reiknað er með að smábátar fái 5% en hún leggur til að það verði allt upp undir 18%. Hvað mundi hv. þingmaður gera ef makríllinn mundi nú bara haga sér þannig að hann kæmi ekki upp að ströndum landsins og mundi aðeins veiðast á djúpinu þar sem stóru skipin næðu honum? Þessir 150 milljarðar — væri hún sátt við að þjóðfélagið yrði af þeim verðmætum?