144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[17:52]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi orð hv. þingmanns um að við höldum hér áfram vinnu sem hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar og um hvatningu til okkar um að gera og taka það sem gott er, þá get ég algerlega tekið undir með honum. Ég held að á síðasta kjörtímabili hafi einmitt verið ágætis þverpólitískt samkomulag hvað þetta mál varðar milli þáverandi stjórnarandstöðu og stjórnarflokka um hvernig leysa ætti úr þessum málum. Þess vegna held ég og ber væntingar til þess að hægt sé að klára þessi mál með þessum hætti.

Hvað spurningu varðar hv. þingmanns um fjármögnunina þá stendur til að féð komi úr ríkissjóði. Fyrirkomulagið tekur gildi frá og með árinu 2016 og verður það sett af hálfu ráðuneytis míns sem tillaga inn í fjárlagagerðina að féð komi beint úr ríkissjóði.