144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur misskilið mig ef hann telur að það sé afstaða mín. Það eru þrír þættir sem ég er að tala um. Nokkrir óvissuþættir eru taldir upp í frumvarpinu sem gilda um makrílinn, sem er öðruvísi en um marga aðra stofna. Það er þetta álit umboðsmanns, sem segir einfaldlega að á árinu 2011, í síðasta lagi, hafi verið skylt, samkvæmt þeim lögum sem gilda í landinu, að fara eftir þessu. Það var ekki gert heldur var gefin út reglugerð sem hefur síðan verið farið eftir. Þar með eru komnar eðlilegar lögmætar væntingar, hjá þeim sem hafa fengið þá úthlutun, um að menn ætli að halda þeirri stefnu.

Þar til viðbótar er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kveðið á um að við ætlum okkur að nýta þetta kerfi áfram sem hafi gefist vel. Og þess vegna er frumvarpið með þessu sniði. Það er hins vegar þannig að um talsverða breytingu á hlutdeildarsetningu er að ræða, þetta eru sérlög og þingið getur auðvitað sett sérlög, það er það sem hv. þingmaður var kannski að spyrja eftir. Hér eru sett sérlög og þau eru (Forseti hringir.) með talsvert öðrum hætti en verið hefur. Hér er um tímabundna úthlutun að ræða og álag er tekið á gjaldið vegna þess að það er enn þá renta í þessum stofni.