144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Í ræðunni kom hv. þingmaður inn á að ef til vill væri verið að horfa til þess að greinin hefði fjárfest svo mikið og þess vegna þyrfti að kvótasetja og menn hefðu það verðmæti til að mæta þeirri fjárfestingu.

Mig langar að benda á að stærstu skipin í uppsjávargeiranum fjárfestu ekki sérstaklega út af makrílnum, vegna þess að sá búnaður sem var fyrir hendi nýttist til bæði sjós og lands. Það voru því ekki miklar fjárfestingar á ferðinni þar, sem sýnir enn betur að greinin getur auðvitað risið undir því að greiða afgjald til þjóðarinnar og þarf ekki á sérstökum byggðastuðningi eða ríkisstuðningi að halda.

Hæstv. ráðherra talar um og skýlir sér á bak við umboðsmann Alþingis og málarekstur Vinnuslustöðvarinnar og að síðustu stjórnvöld hafi ekkert gert í því máli. Telur hv. þingmaður ekki að löggjafinn hafi alltaf það vald að setja lög um úthlutun á nýjum tegundum þótt dregist hafi að gera það, og vissulega hefði verið betra að það hefði verið gert fyrr?

Varðandi samþjöppun í greininni sem hefur komið til umræðu, telur hv. þingmaður ekki að sú samþjöppun verði ansi hröð vegna þess að minni útgerðir sem þarna eiga í hlut og verða kvótasettar rísa ekki undir veiðum miðað við þann kvóta sem þær fá og þurfa að fara að fjárfesta og rísa ekki undir því, að þetta verði ansi hröð fjárfesting á kostnað þeirra minni sem hafa reynt byggja sig upp með miklum tilkostnaði?