144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og eins hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Við í allsherjar- og menntamálanefnd höfum talsvert skoðað þessi mál og við fórum meðal annars í heimsókn, öll nefndin, til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem annast framkvæmd þeirra hlerana sem heimilaðar eru og kynntum okkur með hvaða hætti sú starfsemi fer fram. Það var mjög lærdómsríkt fyrir okkur í nefndinni og alveg ljóst að tæknin sem býður okkur upp á svo marga nýja möguleika er eitthvað sem við þurfum líka að gæta að, þ.e. með hvaða hætti við ætlum að sinna eftirliti.

Við kölluðum jafnframt til okkar ríkissaksóknara, í kjölfar þessarar heimsóknar okkar, til að kynna okkur með hvaða hætti eftirlitið fer fram og var sá fundur gagnlegur fyrir nefndina. Það er alveg ljóst að ríkissaksóknari reynir eftir fremsta megni að sinna hlutverki sínu vel en auðvitað er það alltaf þannig að hægt er að gera betur og það stendur mikill vilji til þess.

Mig langar einnig að fagna því sem fram kom í máli ráðherrans, að nú liggi fyrir drög að frumvarpi frá réttarfarsnefnd sem ráðherrann hefur til skoðunar varðandi breytingar á lögunum til að skýra ákvæði laganna enn frekar um það hvaða skilyrði við viljum að séu uppfyllt áður en slíkar heimildir eru veittar. Það er rétt sem hér hefur komið fram, í máli, held ég, allra sem hér hafa kvatt sér hljóðs, að þegar við erum að tala um friðhelgi einkalífsins og þegar við erum að tala um svona mikið inngrip í þau mannréttindi okkar verðum við að vera með skýrar reglur. Ég held að við séum öll sammála um það hér inni. Hins vegar erum við, held ég, ekki öll sammála um forvirkar rannsóknarheimildir sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom aðeins inn á og við munum auðvitað takast á um það mál hér í þingsalnum síðar.