144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:30]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og ég fór yfir í ræðu minni, varðandi úthlutun til smábátasjómanna, hefur það komið fram í ályktun frá þeim að þeir muni helst vilja sækja 18% af heildarúthlutun aflamarks í makríl. Þar sem makríllinn er nýr í landhelginni gengur hann inn á þau mið sem smábátasjómenn eru að róa á þannig að þeirra reynsla er í raun nýlega farin að skapast. Þess vegna er ekkert endilega gott að miða við þessi 5%.

Eins og rakið var í morgun af hv. þingmanni Framsóknarflokksins þá er sú hætta fyrir hendi að ef menn fá svo litlu úthlutað fari þeir annaðhvort að leigja frá sér eða að standa í dýrum kaupum sín á milli og það tel ég ekki vera gott fyrir þessar litlu útgerðir. Þeir hafa talað fyrir 18% en hafa líka bent á að þeir gætu nálgast þetta einhvers staðar annars staðar frá, t.d. í kringum 14% eins og gert er í Noregi. Það er auðvitað þeirra að setja fram kröfurnar, hvað þeir telja sig geta veitt, en það er augljóslega á þessu bili. Það eru kannski ekki heilagar tölur frekar en aðrar, en mér finnst í það minnsta að taka eigi tillit til þess hvernig og hvenær aflareynslan hefur og er að myndast af því að þetta er bara of skammur tími.

Þar fyrir utan finnst mér þetta ekki tímabært. Við höfum mikið talað um það hér að við vitum ekkert um makrílinn. Ég held að við eigum þá bara að bíða svolítið þangað til við vitum meira um hann. — Ég verð bara að klára svarið í næsta andsvari.