144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[19:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur margt verið skoðað í því að finna hina réttu leið. Eins og ég hef nefnt nokkrum sinnum í dag erum við að þróa þessar leiðir smátt og smátt. Ég tel að þetta séu ekki neitt flóknar reikniaðferðir sem veiðigjaldsnefnd hefur verið að þróa. Ég tel að þær hafi verið mjög skynsamlegar, að finna þessi afkomuígildi. Ég held að það sé mjög sanngjörn leið til að deila gjaldinu. Hins vegar eru allir sammála um það að það er gallað, óheppilegt, að nýta gömul gögn. Það þurfum við að gera næstu tvö ár á meðan við fáum réttar upplýsingar úr skattframtölum fyrirtækja og getum nýtt það beint, með nýjustu upplýsingar um tekjur og gjöld.

Ég held að það verði mjög til bóta þegar við verðum komin á þann stað. Ég ítreka að þessi aðferð, sem hér er kynnt til næstu þriggja ára, er með nákvæmlega sama hætti og á yfirstandandi ári. Ef menn voru sæmilega sáttir við það hér í þinginu sem þeir samþykktu í fyrra þá ættu menn ekki að hafa sérstakar áhyggjur næstu þrjú árin. Takk fyrir umræðuna.