144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

staða kjaramála.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Samningarnir frá árinu 2014 fóru nú ekki meira í vaskinn en svo að þeir skiluðu verulegri kaupmáttaraukningu og á síðasta ári mældist kaupmáttur ráðstöfunartekna sá mesti í sögunni. Mesti í sögunni. Um hvað snýst þetta á endanum allt saman? Snýst það ekki um að bæta kjörin og auka kaupmáttinn, að krónurnar sem koma upp úr launaumslaginu í lok mánaðar dugi betur í ár en þær gerðu í fyrra? Nákvæmlega það sem gerðist á síðasta ári. Nákvæmlega það. Hvað hefur ríkisstjórnin lagt af mörkum? Við erum á þessu ári að skila 5 milljörðum aftur til heimilanna með því að fella út vörugjöldin. Við stilltum öllum krónutölugjöldum ríkisins á núll þegar verðgildið rýrnaði á þessu ári til að viðhalda stöðugleikanum. Við höfum lagt á okkur til þess að ríkisfjármálin ýti ekki undir verðbólgu. Það er eitt sem við höfum gert. Og svo höfum við náð samningum sem auka hagræði í opinbera kerfinu, m.a. með kennarasamningunum sem vísað var til. Að sjálfsögðu kemur allt það til greina sem hv. þingmaður nefnir, að skoða hvernig við getum náð sameiginlega fram þessum markmiðum, t.d. með (Forseti hringir.) tilfærslu í kerfunum. En við getum ekki gert það á sama tíma og við höfum yfir okkur (Forseti hringir.) kröfur um hækkanir upp á 50%, tala nú ekki um þegar þær eru farnar að nálgast 100%.