144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

framkvæmd upplýsingalaga og upplýsingastefnu.

532. mál
[15:53]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég færi hv. þingmanni þakkir fyrir að fylgja þessu máli eftir og endurtek spurningar hv. þingmanns og svara þeim svo í framhaldinu hverri fyrir sig.

Í fyrsta lagi er spurt: Hvers vegna hefur ráðherra ekki enn gefið Alþingi skýrslu um framkvæmd upplýsingalaga í samræmi við 3. mgr. 13. gr. laganna? Hvenær hyggst ráðherra gefa umrædda skýrslu?

Í sjálfu sér eru ekki önnur tímamörk á slíkri skýrslugjöf lögum samkvæmt en þau að ráðherra skuli reglulega, eins og það er orðað, gefa Alþingi skýrslu um þetta efni. Nú er verið að vinna að skýrslunni í forsætisráðuneytinu og gert er ráð fyrir að hún verði annaðhvort lögð fram á Alþingi nú fyrir sumarhlé eða í byrjun hausts.

Önnur spurning: Hefur verið mörkuð upplýsingastefna til fimm ára eins og ráðherra er skylt að hafa forgöngu um skv. 3. mgr. 13. gr. upplýsingalaga?

Áformað er að hefja vinnu við umrædda stefnumörkun þegar fyrrnefnd skýrsla liggur fyrir. Skýrslan mun veita innsýn í það hvernig framkvæmd upplýsingalaganna nýju frá 2012 hefur gengið og hver sé hugsanleg þörf á úrbótum. Þeir aðilar sem nefndir eru í 13. gr. upplýsingalaganna, m.a. Blaðamannafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og skjalaverðir opinberra skjalasafna, verða að sjálfsögðu hafðir með í ráðum við þá stefnumörkun.

Þá að þriðju spurningunni: Hvernig metur ráðherra árangurinn af nýju upplýsingalögunum og telur hann að eitthvað mætti betur fara í lögunum eða framkvæmd þeirra?

Í stórum dráttum tel ég að framkvæmdin hafi gengið vel. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur haft í nógu að snúast, en úrskurðir hennar bera vott um að stjórnsýslan er enn að þróast jafnt og þétt í átt til aukins gagnsæis. Ein stærsta breytingin 2012 var sú að þeir sem fara fram á aðgang að gögnum þurfa ekki lengur að einskorða sig við tiltekin afmörkuð mál heldur geta beðið um upplýsingar um málefni. Jafnframt er hægt að biðja um aðgang að tilteknum gögnum, t.d. að bókhaldi opinberra stofnana, án þess að þau tengist einu tilteknu máli. Formlegum hindrunum fyrir aðgengi að upplýsingum hefur því fækkað.

Eitt af því sem mætti skoða, af því að sérstaklega er spurt um það, er gildissvið laganna. Nýju lögin víkkuðu gildissviðið út þannig að þau næðu til fyrirtækja í opinberri eigu, þ.e. meira en 50% í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Raunin hefur hins vegar verið sú að fjölmörg slík fyrirtæki hafa fengið undanþágu að fenginni umsögn Samkeppniseftirlitsins. Hefur sú undanþága verið studd sjónarmiðum um að rýra ekki samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á markaði. Það má að sjálfsögðu sýna því viðhorfi skilning, enda gengi það gegn hagsmunum almennings að rýra samkeppnisstöðu fyrirtækja sem eru í almannaeigu.

En þá væri ástæða til að fara yfir þessi mál og hvort markmiðin hafi náðst að þessu leyti og það hvort raunhæft hafi verið að víkka gildissviðið út með þessum hætti því að við hljótum að vilja standa vörð um fyrirtæki í almannaeigu. Að minnsta kosti hefur mikill tími farið í það í ráðuneytinu og Samkeppniseftirlitinu og hjá fleiri aðilum að vega og meta undanþágubeiðnirnar. Öll sú vinna hefur í raun skilað heldur litlu þó að hún hafi að sjálfsögðu verið nauðsynleg samkvæmt lögunum, enda nauðsynlegt að fylgja lögunum eins og þau eru.