144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alvarlegt ástand á vinnumarkaði eins og ekki fer fram hjá nokkrum manni. Formaður Sjálfstæðisflokksins kom í ræðustól í gær og gaf yfirlýsingar sem voru ekki til þess fallnar að greiða fyrir lausn kjaradeilu við BHM þar sem hann sneri út úr kröfugerð samtakanna og ásakaði þau um að vinna gegn jöfnuði í samfélaginu. Hann virðist ekki hafa tekið eftir að það er mikill munur á kröfugerð einstakra hópa í yfirstandandi kjaradeilu. Starfsgreinasambandið hefur réttilega lagt áherslu á hækkun lægstu launa og miðar þar við 300 þús. kr. enda er enginn alvöruatvinnurekstur í landinu sem nokkru máli skiptir sem getur ekki staðið undir slíkum launum.

Önnur félög, eins og BHM, leggja áherslu á hækkun hjá þeim meðaltekjuhópum sem þar standa að baki. Fyrir því eru einnig gild rök. Þessir hópar hafa borið þyngstar byrðar vegna gengisfalls krónunnar og hækkandi álaga af hálfu þessarar ríkisstjórnar og aukinnar kostnaðarþátttöku sem hefur verið dembt yfir venjulegt fólk. Þetta eru staðreyndir sem eftir standa. Það sem sameinar kröfugerð ólíkra hópa er baráttan gegn vaxandi ójöfnuði og gegn því að það séu til ákveðnir forréttindahópar í samfélaginu sem geti skammtað sér kjör sem séu algjörlega úr samræmi við það sem allir aðrir eiga kost á.

Við þessar aðstæður er grafalvarlegt mál þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra sem fer með samningsumboð í kjaradeilum við viðsemjendur ríkisins fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, kemur í ræðustól Alþingis og hótar mönnum afnámi eða skerðingu á verkfallsrétti ef þeir hagi kröfugerð sinni með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Það er mjög sérkennilegt að heyra fjármálaráðherra í miðri kjaradeilu tala niður verkfallsréttinn, það helga vopn, eins og hann gerði hér í ræðustól í gær.