144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

685. mál
[14:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að hlæja að sérstökum áhuga hv. þingmanns og Ora-baunum, miklu frekar að gleðjast yfir því að við deilum áhuga á þessari ágætu vörutegund sem er í raun hluti af íslenskri matvælahefð. Án þess að ég ætli að kveða upp endanlegan dóm hér mundi ég halda að Ora-baunir, fyrst spurt er um þær alveg sérstaklega, féllu undir hina svokölluðu 30 ára reglu sem ég fór yfir áðan, þ.e. að vara teljist íslensk að uppruna sem framleidd hefur verið hér á landi í að minnsta kosti 30 ár undir íslensku vörumerki jafnvel þótt hún sé framleidd úr innfluttu hráefni að stórum hluta eða öllu leyti. Ég mundi halda að Ora-baunirnar slyppu þarna inn.

Hvað varðar hins vegar hönnunarvöruna er það auðvitað alþekkt að heimsþekktir hönnuðir sem kenndir eru við tiltekin lönd, ég nefni alla þessa dönsku hönnuði sem dæmi, láta í mörgum tilvikum framleiða vörurnar erlendis. Engu að síður er litið á þær sem danska vöru. En betra dæmi er IKEA. IKEA og markaðssetning þess fyrirtækis er nátengd upprunalandinu Svíþjóð og hönnunin er iðulega sænsk þó að fyrirtækið ráði reyndar til sín ýmsa hönnuði frá öðrum löndum, meðal annars íslenska. En jafnvel þótt vörurnar séu framleiddar í einhverjum tilvikum, og eflaust í flestum tilvikum, utan Svíþjóðar teljast þær engu að síður hönnun sænsks fyrirtækis og eru þess vegna merktar sem slíkar.