144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:52]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fram er komið mál um skipulagsmál, fagna því að skipulagsmál í þéttbýli séu til umfjöllunar í þessum sal. Ég hef hins vegar svo sem margvísleg sjónarmið hvað þetta varðar. Ég deili áhuga hæstv. forsætisráðherra á skipulagsmálum í þéttbýli og frumvarpið er um margt sérstakt. Ég fagna viðleitni hæstv. forsætisráðherra að gera menningarminjum í þéttbýli hærra undir höfði en verið hefur. Hvað sjónarmið mín að öðru leyti varðar ætla ég að fjalla um þau í ræðu minni á eftir.

Ég velti því hins vegar fyrir mér svo sem eins og aðrir þeir sem hafa veitt hér andsvar hvort það sé virkilega nauðsynlegt að takmarka valdsvið sveitarfélaga með þessum hætti og hvort það sé ekki í öllu falli umhugsunarvert að þessi lög gera ráð fyrir að ákvæði um hverfisvernd í núgildandi skipulagslögum verði fellt brott. Ég vísa þar til 12. gr. frumvarpsins, en í skipulagslögum er sannanlega ákvæði sem kveður á um að „þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skal lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar … “ o.s.frv.

Mig langar aðeins að fá sjónarmið hæstv. forsætisráðherra hvað það snertir, hvort nauðsynlegt sé að fella þetta út. Svo velti ég líka fyrir mér að í 4. gr. í frumvarpinu er gert er ráð fyrir að sveitarstjórn skuli á fjögurra ára fresti, að loknum sveitarstjórnarkosningum, endurmeta þau verndarsvæði sem fyrir eru í sveitarfélaginu. Ég velti fyrir mér hvort hér sé ekki kveðið á um fullmikinn hringlandahátt ef menn eru á annað borð sammála um að verndarsvæði eigi að vera til verndar til framtíðar.