144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég sé að við þurfum lengri tíma til þess að ræða þetta alveg í þaula en ég verð að segja eins og er að ég hef samt sem áður þessar áhyggjur. Nú tala ég íslensku og þegar ég les þetta þá sýnist mér að þarna sé borgaralegri stofnun falin verkefni sem tilheyra venjulega hernaðaryfirvöldum í öðrum ríkjum sem hafa her. Ef ég sem íslenskumælandi get skilið þetta þannig þá hef ég miklar áhyggjur af því að hætta sé á því að einhver sem talar ekki íslensku — og ég leyfi mér að fullyrða að til séu hermenn og hryðjuverkamenn úti í heimi sem hafa ekki heldur mitt greindarfar, ég ætla að leyfa mér þann hroka — misskilji þetta líka.

Sömuleiðis hef ég áhyggjur af því að ef hernaðarleg verkefni fara almennt til borgaralegra stofnana þá fylgi með einhvers konar hernaðarlegt viðhorf. Það er kannski stærri umræða og á betur heima í umræðu um lögregluna, gott og vel, ég get svo sem ekki ætlast til þess að hæstv. utanríkisráðherra svari spurningum um lögrelguna sem slíka. En það undirstrikar svolítið vandann sem ég óttast í það minnsta, að ef hernaðarleg verkefni af einhverri tegund tilheyra lögreglunni leiði það af sér, ef kemur til átaka, að menn líti á lögregluna sem hernaðarlegt skotmark eða í það minnsta að einhverjar tilteknar skyldur eða tiltekin verkefni lögreglunnar hafi hernaðarlegt vægi.

Ég hef enn þessar áhyggjur en vænti þess að við þurfum lengri tíma en við fáum í andsvörum til þess að ræða þetta til hlítar. En mér finnst mikilvægt að við höfum í huga að þessi aðskilnaður þarf að vera eins skýr og mögulegt er.