144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[19:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á fyrstu árum lýðveldisins og nokkuð fram eftir ríkti djúpstæður ágreiningur um utanríkismál og þá sérstaklega varnarmál og einkenndi íslensk stjórnmál í áratugi. Það urðu náttúrlega gífurlegar breytingar á samskiptum Vesturlanda við löndin í Austur- og Mið-Evrópu við fall Berlínarmúrsins í nóvember 1989, en það liðu samt meira en 20 ár áður en forsendur sköpuðust til þess hér á landi að leggja fram tillögu um að skipa nefnd til að gera tillögur að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem allir þingflokkar ættu aðild að. Slíka tillögu lagði þá hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson fram og var hún samþykkt í september 2011, að mig minnir.

Það var mjög ánægjulegt og lærdómsríkt fyrir mig að mér skyldi fengið það verkefni að stýra vinnu þessarar nefndar og ég held að mér sé óhætt að segja að það ríkti eindrægni í nefndinni. Það var alveg ljóst að við vildum gjarnan öll komast að samkomulagi en okkur tókst ekki, virðulegi forseti, að ljúka vinnunni fyrir kosningar 2013 og okkur tókst ekki að setja punktinn yfir i-ið þá. Þess vegna langar mig að lýsa sérstakri ánægju minni yfir því að hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson beitti sér fyrir því að nefndarmenn næðu samkomulagi um að ljúka verkinu og skilaði nefndin verkinu frá sér til hæstv. ráðherrans í febrúar 2014. Og ég vil endurtaka að það var ekkert sjálfgefið að þessu yrði formlega lokið og skilað þó svo að allri vinnu hafi meira og minna verið lokið fyrir kosningar þannig að ég vil ítreka ánægju mína með framgöngu hæstv. ráðherra í þessu máli.

Sú tillaga sem ráðherrann hefur nú lagt fram byggir meira og minna á starfi þessarar þingmannanefndar. Í starfinu skilgreindum við þjóðaröryggi eins og það hafði verið gert í áhættumatsskýrslu sem var unnin fyrir utanríkisráðuneytið nokkrum árum fyrr og hafði verið skilað 2007 af nefnd undir formennsku Vals Ingimundarsonar. Þar var tekið tillit til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta. Þess vegna var litið til öryggishugtaksins með heildrænum hætti og þjóðaröryggi skilgreint út frá því, enda verða viðfangsefni sem flokkast undir utanríkis- og innanríkismál æ samtvinnaðri og hefðbundin skil milli borgaralegs og hernaðarlegs öryggis verða sífellt óljósari. Það var komið inn á þetta í andsvörum fyrr í dag og ein af þeim áskorunum sem við hljótum að standa frammi fyrir er einmitt hvernig við getum samþætt stofnanir okkar í þessu tilliti og hvernig borgaralegar stofnanir okkar geta unnið með hernaðarlegum stofnunum sem, eins og ég mun koma að síðar í máli mínu, er óhjákvæmilegt.

Auðvitað voru áherslur þingflokka ólíkar í þeim efnum sem fjallað var um í vinnu nefndarinnar sem vann að þjóðaröryggisstefnu en við lögðum áherslu á að ná sem breiðastri samstöðu í þessum málum öllum. Og þó að einhverjum, sem ég leyfi mér kannski að kalla harðlínumenn á hvorum væng fyrir sig, finnist stefnan ekki nógu skýr og ekki nógu hörð og að ekki séu gerðar nógu ákveðnar kröfur tel ég að það skipti miklu máli að við höfum sameiginlegan grundvöll til að vinna á og ég held að átök og stóryrði í þessum efnum séu bæði óþörf og gagnslaus.

Mig langar að nefna nokkur atriði sem fram koma í stefnunni og hugrenningar mínar um þau í því samhengi þegar við unnum að þessu. Fyrst vil ég nefna samvinnuna á norðurslóðum, en eins og við vitum öll hefur orðið gífurleg breyting á öllum staðháttum þar. Siglingar hafa aukist þó að þróunin verði kannski ekki jafn hröð og margir búast við. En þar eru miklar áskoranir og við höfum verið í samvinnu við önnur ríki, t.d. við eftirlit og björgun. Sú samvinna var mikil fyrir, ég held að það séu að verða tvö ár síðan það var mikil æfing sem við tókum þátt í úti fyrir austurströnd Grænlands. Þá kom einmitt í ljós í þeirri æfingu og hefur komið fram að ef þar yrði slys sem við mundum taka þátt í björgun við þá eru þeir aðilar sem við vinnum með herir. Ef Bretar senda einhverja til björgunar og ef Norðmenn senda einhverja þá senda þeir herskip. Það er því nauðsynlegt fyrir borgaralegar stofnanir okkar að kunna og geta unnið með herjum sem vinna allt öðruvísi en borgaralegar stofnanir. Það skiptir meginmáli í því, tel ég vera, að okkar borgaralegu stofnanir haldi einkennum sínum og breytist ekki í litla heri. En við þurfum líka að átta okkur á því að það er nauðsynlegt engu að síður að við kunnum að vinna með slíkum aðilum.

Varðandi stöðuna á norðurslóðum þá hugsaði ég það oft þegar við vorum að vinna að þessu að það hafa verið og eru miklar væntingar um tækifæri sem breytingar á norðurslóðum geta falið í sér, efnahagsleg tækifæri. En ég tel að það séu kannski öryggisatriði bara eitt og út af fyrir sig að menn séu ekki með of miklar væntingar í þeim efnum vegna þess að við höfum fyrr farið svolítið flatt á því, íslensk þjóð, að vera með efnahagslegar væntingar sem ekki hafa staðist. Ég held að við ættum að halda okkur á jörðinni með væntingar um tækifæri sem breytingarnar á norðurslóðum geta gefið okkur.

Virðulegi forseti. Í þessum tillögum, í hinum hefðbundnu varnar- og öryggismálunum, er aðildin að NATO og varnarsamningar við Bandaríkin áfram stólpar sem stefnan hvílir á, en jafnframt á að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf sem lýtur að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðastarfi á því sviði. Ég tel mjög mikilvægt að lögð sé áhersla á þetta samstarf vegna þess að þó svo að samningurinn við Bandaríkin sé auðvitað einn af þeim stólpum sem stefna okkar hvílir á held ég að miklu máli skipti að við eflum og aukum það samstarf sem við eigum við önnur grannríki. Norðurlandasamvinna hefur til dæmis aukist og við erum með vildarsamninga eða eigum gott samstarf við bæði Breta og Frakka í þessum efnum.

Ég vil líka, rétt eins og hv. þingmaður hér á undan mér, Birgitta Jónsdóttir, lýsa sérstakri ánægju minni með að við erum friðlýst fyrir kjarnavopnum. Hún var reyndar með vangaveltur um hvað það þýddi „að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga“. Ég tel að það sé varúðaratriði að hafa þetta inni. Ég tel einmitt mjög mikilvægt að það sé eitt af tíu atriðum í stefnu okkar og beinlínis orðað að við viljum verða friðlýst fyrir kjarnavopnum. Og mér finnst líka skipta miklu máli að það kemur fram annars staðar í stefnunni og ég tel að við eigum að leggja áherslu á það að við eigum hvar sem við getum að reyna að tala fyrir afvopnun. Þótt við séum lítið land þá er ekki þar með sagt að ekki sé hlustað, að ekki heyrist það sem við segjum. Við eigum því hvar sem við getum að tala fyrir afvopnun og friði.

Nú þýtur tíminn frá mér, en mig langaði sérstaklega að nefna þjóðaröryggisráðið sem utanríkisráðherra boðar að flutt verði frumvarp um að sett verði á stofn. Ég held að það sé mjög mikilsvert, en það er einmitt ein áskorunin í þessari nýju þjóðaröryggisstefnu hvernig íslenskar stofnanir sem heyra kannski undir ólík ráðuneyti vinna saman. Það skiptir gífurlegu máli að þar verði komið á einhverju kerfi sem dugar ef grípa þarf til einhverra sérstakra ráðstafana.