144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Líkt og segir í athugasemdum með ályktuninni er markmiðið með tillögunni að þjóðaröryggi sé skilgreint með sem víðtækustum hætti og taki til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta og felist í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki.

Ég verð að segja í upphafi máls míns að ég er svolítið klofin í afstöðu minni til þeirrar tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra leggur hér fram þar sem ég er mjög sammála sumum punktum en mjög ósammála öðrum. En ég virði hins vegar mjög mikils starf þverpólitískrar nefndar sem starfaði á síðasta kjörtímabili og skilaði af sér skýrslu í lok þess. Ég virði það mjög mikils að menn hafi sest niður og reynt að koma sér saman um þau atriði sem við gætum sameinast um. Líkt og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði hér áðan þá eru kannski öfgamenn á báðum endum hins pólitíska litrófs sem ekki geta fellt sig við allt og ég verð líklega að gangast við því að ég tilheyri þeim hópi.

Þjóðaröryggisstefnan felur í sér tíu liði eða áherslupunkta og það eru helst þeir liðir sem taka til hernaðartengdra þátta sem ég set spurningarmerki við að séu partur af þjóðaröryggisstefnu Íslands. Ég held raunar að þeir geti í sumum tilvikum hreinlega frekar verið til þess að ógna þjóðaröryggi okkar en til þess að tryggja það. Vil ég í því sambandi nefna til að mynda aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Þá vil ég nefna 4. punktinn þar sem í fyrri hluta setningarinnar er fjallað um að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál, en ég hef svolitlar áhyggjur af því að við séum að færa okkur í meira samstarf á hernaðarsviðinu með öðrum þjóðum Norðurlanda. Ég er hins vegar sammála síðari hluta setningarinnar þar sem er talað um annað grannríkjasamstarf sem lúti að svæðisbundnum hagsmunum og þátttöku í alþjóðasamstarfi á því sviði. Það eru því punktar sem ég set spurningarmerki við, en svo eru aðrir punktar sem ég tel gríðarlega mikilvæga fyrir þjóðaröryggi okkar Íslendinga og held að við þurfum að setja mjög mikinn fókus á. Þar get ég nefnt öryggishagsmuni Íslands á norðurslóðum sem er hér punktur nr. 1, sem og að Ísland sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum.

Nú er það náttúrlega svo að kjarnorkuvopn virða engin landamæri þannig að eins frábært og mér finnst að áhersla á friðlýsingu sé hér inni finnst mér mjög mikilvægt að ræða þann lið í tengslum við lið nr. 5, sem er að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands í virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun og virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi. Það er vegna þess að til að kjarnorkuváin ógni ekki öryggishagsmunum okkar í hinu stóra samhengi þurfum við náttúrlega að taka á henni líka á alþjóðavettvangi. Að því sögðu vil ég endurtaka að ég er svakalega ánægð með að 9. liður um að landhelgi Íslands sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum sé hérna inni, en ég held að hann sé að mörgu leyti mikilvæg pólitísk yfirlýsing meðan hið stóra öryggislega samhengi liggi kannski meira í lið nr. 5.

Í athugasemdum með tillögunni er að finna flokkun þar sem ógnum og áhættuþáttum er raðað upp og er hún að mínu mati mjög gagnleg og varpar miklu ljósi á þá þætti sem skipta máli þegar þjóðaröryggi er annars vegar. Þar eru í flokk eitt settar hættur sem ber að setja í forgang með hliðsjón af viðbúnaði og fjármunum og það eru umhverfisvár, netógnir og náttúruhamfarir. Í flokki tvö eru ógnir sem þarfnast fullrar athygli og þar eru undir skipulögð glæpastarfsemi, fjármála- og efnahagsöryggi, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi, farsóttir og hryðjuverk. Hryðjuverk hafa raunar verið færð upp um flokk frá því sem kom fram í athugasemdum nefndarinnar sem var að störfum og gerði hæstv. utanríkisráðherra einmitt grein fyrir í framsögu sinni. Í þriðja flokki eru svo hættur sem ólíklegt er að steðji að Íslandi en mundu vega að fullveldi og sjálfstæði landsins og þar undir er hernaðarógn.

Hæstv. forseti. Það kom mér talsvert á óvart þegar ég las í gegnum athugasemdir með þingsályktunartillögunni að þrátt fyrir að hernaðarógn sé sett í flokk nr. þrjú þá fjallar rosalega mikið eða umtalsvert mikið af textanum um hernaðarógnina. Mér finnst dapurlegt að hún fái svona mikið vægi í textanum og líka mikið vægi í þeim tíu áhersluliðum sem settir eru fram í þingsályktunartillögunni og efni tillögunnar snýst í raun um, og að hættur í flokki eitt sérstaklega og reyndar líka tvö fái ekki meiri og dýpri umfjöllun í athugasemdunum. Mér finnst í raun mikið púður fara í að fjalla um hernaðartengd málefni sem þó eru ekki flokkuð sem mesta hættan sem steðjar að Íslandi.

Ég vil þó segja að út af fyrir sig er ég sammála hæstv. forsætisráðherra að við þurfum alltaf að skoða þá hernaðarlegu ógn sem heimurinn er að takast á við hverju sinni. Ísland er herlaust land og við eigum að tala máli friðar og afvopnunar líkt og sagt er í þingsályktunartillögunni. Þess vegna ætla ég að vona að við gerum það svo sannarlega inn á við, þ.e. í því hernaðarsamstarfi sem við eigum í í NATO þar sem sæti eiga margar af stærstu vopnasöluþjóðum heimsins (Forseti hringir.) auk þess sem það er bandalag sem áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Mér finnst að við eigum að leggja áherslu á það atriði í máli okkar (Forseti hringir.) einmitt til þess í hinu stóra samhengi að tryggja öryggi okkar á heimsvísu.