144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það að það skiptir miklu máli að fyrir hendi sé sameiginlegur skilningur gagnvart samstarfs- og vinaríkjum um hvað sé leyfilegt og hvað ekki. Auðvitað hafa komið upp dæmi þar sem skoðanir hafa verið skiptar um það. Þær uppljóstranir sem áttu sér stað um starfsemi NSA í Bandaríkjunum voru auðvitað áfall fyrir mörg samstarfsríki Bandaríkjanna, bara svo að dæmi sé nefnt.

Þetta er eitt og þar held ég að samtal og samvinna sé mikilvægur þáttur. En þegar kemur að öðrum árásum getur maður reynt að flokka það með mismunandi hætti. Það geta verið glæpasamtök eða glæpamenn sem vilja afla sér fjárhagslegs ávinnings með einhverjum hætti í þessu sambandi. Það geta verið hryðjuverkamenn sem vilja valda skaða, vilja lama innviði samfélags eða einstaka mikilvæga innviði, hvort sem um væri að ræða orkukerfi, fjármálakerfi eða annað þess háttar. Svo getur líka verið um að ræða skipulagðar aðgerðir af hálfu ríkja. Það hafa komið upp á undanförnum missirum dæmi um rökstuddar grunsemdir af hálfu einstakra ríkja um að þau hafi orðið fyrir slíkum árásum frá ríkjum sem hafa getað talið það þjóna sínum pólitísku hagsmunum að valda með einhverjum hætti upplausn eða öðru slíku. Það leiðir hugann að því hvernig það yrði ef til raunverulegra hernaðarátaka kæmi í okkar veruleika í dag. Yrði fyrsta línan í árásunum ekki einmitt netárásir?