144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, slík árás yrði alla vega með þeim fyrri; svo mikið er víst, held ég. Ég hefði viljað halda áfram með hinn þáttinn af þessari stórríkjaógn. Stórríkjaógnin, eins og ég ætla að leyfa mér að kalla hana, er alla vega tvíþætt; reyndar margþætt en í það minnsta tvíþætt. Það er annars vegar þegar kemur að vinveittum, vestrænum ríkjum á borð við Bandaríkin og Bretland og hins vegar þegar kemur að stórveldum eins og Kína og Rússlandi sem eru ekki endilega óvinaþjóðir en vissulega hvergi nálægt því að vera jafn nánar og Bandaríkin, Bretland eða hinn svokallaði vestræni heimur.

Munurinn á þessum tveimur tegundum af stórríkjum er sá að Bandaríkin búa til þorrann af þeim hugbúnaðarvélbúnaði sem við notum. Við notum til dæmis Apple-tölvur í þingsal og margir nota Windows o.s.frv. Ef þessi ríki láta af því að beita því forskoti sem þau hafa til að njósna er miklu auðveldara að byggja upp einhvers konar jákvætt samband með þeim til að standast ógnirnar frá hinum sem hafa ekki það forskot að búa til tækin og hugbúnaðinn sem við notum daglega við vinnu og leik og starf og allt annað.

Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst mikilvægt að leggja mikla áherslu á það við okkar vinaþjóðir að það sé ekki í lagi að þær hagi sér svona vegna þess að við þurfum að vera í sama liði. Ef það gerist eitthvað, ef það verður þannig að önnur risaveldi, sem eru ekki jafn vinveitt okkur, fara beinlínis að reyna að skemma fyrir okkur þurfum við að vera í sama liðinu og vinveittu þjóðirnar sem búa til þessi tæki. En þá er líka mikilvægt að okkar samband sé algerlega komið á hreint fyrir fram að við ætlum að vera í sama liði.