144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

umræða um húsnæðisfrumvörp.

[15:01]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að bera upp spurningu um fundarstjórn forseta. Nú er það þannig að í gær og eiginlega bara alveg frá því eftir páska höfum við verið að ræða hér mál sem hafa komið til 1. umr. frá ríkisstjórninni og frá ráðherrum. Einhverra hluta vegna erum við ekki enn farin að fjalla um tvö mál frá hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra, sem hún hefur fengið samþykkt í gegnum ríkisstjórn, um húsnæðismál. Hæstv. ráðherra hefur sent starfsmönnum ríkisins í fjármálaráðuneytinu sérstök orkustykki og vonast til að þeir hraði sinni vinnu, en ég velti fyrir mér hvort hún þurfi að senda fleirum orkustykki. Hefur hæstv. forseti fengið slíkt til þess að koma málum hér á dagskrá? Er það það sem þarf?

Ég spyr: Af hverju (Forseti hringir.) erum við ekki enn farin að fjalla um þau mikilvægu mál sem þó liggja fyrir?