144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

framhald uppbyggingar Landspítalans.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst verð ég að leiðrétta hv. þingmann. Það voru ekki uppi áform um stórfelldan áframhaldandi niðurskurð í framlögum til Landspítalans, þvert á móti, enda birtist það glögglega í fjárlögum að framlög til Landspítalans hafa aldrei verið jafn mikil og nú og það á föstu verðlagi. Það er því ekki aðeins búið að vinna upp niðurskurð síðustu ríkisstjórnar heldur bæta í jafnframt.

Hvað varðar svo spurningar eða yfirlýsingar hv. þingmanns og skoðanir á staðsetningu spítalans þá fer eðli málsins samkvæmt viðhald og viðgerðaruppbygging fram á þeim stað sem spítalinn er nú, meðan hann er á þeim stað. Ég hef hins vegar sagt að menn ættu alltaf að taka rökum og skoða möguleika í stöðunni, en í millitíðinni væri mjög mikilvægt að menn hvikuðu ekki frá því að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu þar sem spítalinn er, sérstaklega og ekki hvað síst til að bregðast við þeim niðurskurði sem hann var látinn þola á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.)