144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ummæli ráðherra um afnám verðtryggingar.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ósköp var þetta nú aumt. Hv. þingmaður hefur oft staðið sig betur í útúrsnúningum en þetta, en ég fagna þó tækifærinu til þess að svara spurningunni sem ég hafði því miður ekki tíma til þess að svara þegar hv. þm. Birgitta Jónsdóttir bar hana fram áðan vegna þess að hún spurði um svo mörg stór atriði.

Virðulegur forseti. Það liggur fyrir hvar vinna við afnám verðtryggingarinnar í neytendalánum stendur hvað sem líður þessari sérkennilegu frétt í Fréttablaðinu í morgun. Hún virðist vera, eins og ég var byrjaður að svara hér áðan, einhvers konar framhald af frétt frá því í gær undir mjög villandi fyrirsögn. Hér er svo verið að endurnýta það sem er í raun ársgömul frétt og reyna að túlka hana upp á nýtt til þess að búa til eitthvað allt annað úr henni. Ársgömul segi ég, vegna þess að það er nánast ár frá því gefin var út fréttatilkynning um hvar þessi mál stæðu og ekkert nýtt í frétt Fréttablaðsins frá því sem þar birtist. Þar segir meðal annars að ríkisstjórnin hafi samþykkt á fundi sínum framhald vinnu við afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum. Svo kemur fram, og var töluvert rætt á þeim tíma og raunar umdeilt, að ákveðið hafi verið að framkvæma þetta í fleiri en einu skrefi. Sumir vildu meina að það væri hægt að gera þetta allt í einu, bara í einu skrefi hægt að afnema verðtrygginguna, aðrir töldu skynsamlegra að gera það í skrefum. Ofan á varð að líta til niðurstöðu verkefnisstjórnar um afnám verðtryggingar þar sem bæði var horft til niðurstöðu meiri hlutans en líka tekið mið af ábendingum minni hlutans og samþykkt verkáætlun sem fól það í sér að m.a. mundi fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa umsjón með vinnu við að óheimilt yrði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána yrði lengdur í allt að tíu ár og að takmarkanir yrðu gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána. Svo er í framhaldinu lýst verkefnum velferðarráðuneytis og forsætisráðuneytis. Að þessari vinnu lokinni á árinu 2016, þegar reynsla er komin á árangurinn, verði metið (Forseti hringir.) hvernig sé best að stíga næstu skref við afnám verðtryggingar. Þetta er allt í samræmi við það sem lýst var í Fréttablaðinu í morgun.