144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ásakanir forsætisráðherra um trúnaðarbrest.

[15:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um leka á trúnaðarupplýsingum í tengslum við losun fjármagnshafta. Í frétt í Kjarnanum 8. desember fjallaði Þórður Snær Júlíusson, strax eftir samráðsfund sem var, nánast nákvæmlega um það sem gerðist á samráðsfundi um losun hafta. (Gripið fram í: Varstu þar?) Nákvæmlega. Það er vitnað í fundinn í þeirri frétt, (Gripið fram í.) það er nákvæmlega fjallað um það sem gerðist á samráðsfundi um losun hafta og það er staðreynd.

Það er því mjög alvarlegt í máli eins og þessu að upplýsingum sem slíkum sé lekið. Daginn eftir er hv. þm. Árni Páll Árnason í viðtali þar sem hann fjallar um það sem gerist á þessum fundi og túlkar það. Ég ætla ekki að segja að það hafi verið hv. þm. Árni Páll Árnason sem lak þessum upplýsingum, en það að lekið hafi verið upplýsingum er grafalvarlegt. Þessar tvær staðreyndir blasa við.

Það sem er ótrúlegast að fylgjast hér með er að stjórnarandstaðan skuli ekki skynja mikilvægi þess að trúnaði sé haldið á upplýsingum sem þessum (Forseti hringir.) og skuli ekki skynja mikilvægi þess að taka fast á kröfuhöfunum. [Frammíköll í þingsal.] Það er ótrúlegt að fylgjast með því ítrekað að það sé eins og verið sé að rífa hjartað úr stjórnarandstöðunni (Gripið fram í: Þetta er ósvífni.) [Frammíköll í þingsal.] þegar á að taka fast á kröfuhöfum.