144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á að fagna því að þetta plagg er komið fram. Það er mjög gott. Eðlilega vakna fjölmargar spurningar. Ég tek undir mikilvægi þess meginmarkmiðs að lækka skuldir ríkissjóðs og hefði viljað sjá að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hingað til hefðu litast meira af mikilvægi þess markmiðs, þær hafa ekki gert það að mínu mati, og auka framleiðni í hagkerfinu sem ég held að sé gríðarlega umfangsmikið verkefni og mikilvægt.

Þá er eitt þessu tengt sem ég sé sem undirliggjandi vandamál í þessu og það eru áætlanir um mjög litlar fjárfestingar. Það er mjög lítið sem á að leggja í fjárfestingar og viðhald á vegum hins opinbera. Á bls. 6 í tillögunni segir beinlínis:

„Hið lága fjárfestingarstig hins opinbera undanfarin ár megnar ekki að vinna upp afskriftir. Við þær aðstæður gengur á fjármunaeignir sem dregur úr vaxtargetu hagkerfisins til frambúðar.“

Í þessu kemur fram að það á ekkert að auka fjárfestingar hins opinbera. Þær eiga að vera 1,2% af vergri landsframleiðslu, voru eitthvað í kringum 4–5% á árunum 2006–2007. Í mínum huga heitir það skuldasöfnun að fara ekki í nauðsynlegar fjárfestingar til að byggja upp innviði eða fara ekki í nauðsynlegt viðhald. Það safnast bara upp þörf. Mér sýnist verið að segja það beinlínis í textanum að ef við náum ekki einu sinni að vinna upp afskriftir söfnum við í raun og veru skuldum.

Mig langaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er þetta ekki áhyggjuefni? Þarf ekki að búa til dýpri stefnu (Forseti hringir.) og metnaðarfyllri um fjárfestingar hins opinbera og liggur ekki fyrir augljós þörf?